Konurnar flytja þegar opinbera þjónustan minnkar

Niðurskurður á opinberri þjónustu hefur meiri áhrif á búsetu kvenna en karla á dreifbýlum samkvæmt nýrri norrænni samantekt. Menntaðar konur á barneignaraldri eru líklegastar til að flytja í burtu. Tryggja þarf fjölbreyttari atvinnutækifæri og efla aðgengi og menntun og heilbrigðisþjónustu til að snúa þróuninni við.

Þetta var meðal þess sem fjallað var um á málstofu sem Norðurlöndin stóðu fyrir í tengslum við fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í gær.

Í tilefni af henni voru kynnt ný og einstök kort sem sýna jafnréttisskilyrði í norrænum byggðum. Kortunum er skipt eftir sveitarfélögum en fátt kemur þar á óvart þegar horft er á Austurland.

Á Íslandi nær samþjöppun fólksins nær eingöngu til svæðisins milli Borgarfjarðar og Selfoss, á öðrum svæðum er að dragast saman. Það er einna helst yngra fólkið sem flytur og á kortinu má sjá að einna hæsti meðalaldurinn er á Vopnafirði.

Sérstaklega er horft á kynjahalla í samantektinni, á Austurlandi fer hlutfall kvenna aðeins yfir að vera 90 á móti 100 körlum á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð. Í báðum sveitarfélögunum hefur körlunum þó fjölgað.

Þessi þróun hefur síðan margvíslegar samfélagslegar afleiðingar í för með sér. Til dæmis verður erfiðra að viðhalda velferðarþjónustu, konurnar taka hana frekar að sér ef langt er að sækja hana.

Þótt tölur vanti frá Íslandi segja skýrsluhöfundar að í dreifbýlinu sé staðan sú að karlar starfi í einkageiranum en flestar konur hjá opinberum aðilum. Fábreyttari tækifæri á atvinnumarkaði geri fólkið sem á svæðunum býr viðkvæmara fyrir fækkun og flutningi starfa.

Kynin bregðast ólíkt við breytingunum, karlarnir ráða sig í árstíðabundin verkefni eða leggja á sig lengri leið til vinnu, konurnar skipta um starfssvið eða flytja á þéttbýlli svæði. Skýrsluhöfundar segja að minnka verði mun kynjanna á vinnumarkaði og auka möguleika á fjarvinnu.

Konur á landsbyggðinni eru meira menntaðar en karlarnir. Ásókn í menntun er samt með því sem helst veldur því að þær flytja, þær fara í háskóla og eru síðan áfram á þeim svæðum því þar eru störfin sem þær sækjast í. Til að bregðast við þessu telja skýrsluhöfundar að fjölga þurfi námstækifærum á dreifbýlum svæðum. Fleiri menntaðar konur fjölga síðan menntuðum körlum þannig menntunarstig svæðanna hækkar.

Heilbrigðismál ungabarna skipta konurnar miklu máli og þegar langt er í slíka þjónustu kemur það niður á bæði heilsu kvenna og barna. Víða hefur spítölum eða einstökum deildum, til dæmis fæðingardeildum, verið lokað á dreifbýlum svæðum. Ungar konur því annað hvort að eiga ekki börn eða flytja í þéttbýlið til að stofna fjölskylduna. Við þessu verði að bregðast með fjárfestingu í innviðum.

Þá er komið inn á að konur kvarti undan því að valdastöður í samfélögum þeirra séu eingöngu skipuð karlmönnum og siðirnir taki mark á því. Þær flytja í burtu þegar þær lenda á endalausum veggjum og upplifa sig áhrifalausar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar