Kransæðasjúkdómar algengasta orsök sjúkraflugs

Kransæðasjúkdómar eru algengustu veikindin þegar óskað er eftir sjúkraflugi frá Austurlandi. Læknir segir að læknar eystra þekki best aðstæður þegar taka þurfi ákvörðun um flutning sjúklings með slík veikindi.


Heilbrigðisráðherra lagði fram á Alþingi í lok apríl tölur um sjúkraflug. Tæplega 600 flug voru farin í fyrra, þar af um þriðjungur þeirra á Austurland.

Af gögnunum má ráða að fjórðungur þeirra sjúkrafluga sem farin voru að austan hafi verið vegna kransæðasjúkdóma. Þar á eftir fylgja kviðverkir og öndunarerfiðleikar sem algengustu kvillarnir.

Óttar Ármannsson, læknir á Egilsstöðum, fjallaði um meðhöndlun kransæðasjúkdóma á Austurlandi á heimilislæknaþingi sem haldið var á Egilsstöðum haustið 2014.

Með fyrirlestrinum var Óttar að fylgja eftir grein sem birtist í Læknablaðinu 2010 þar sem fjallað var um viðbrögð við bráðakransæðastíflum. Læknar á landsbyggðinni geta valið milli þess að gefa æðavíkkandi lyf eða flytja sjúkling á sjúkrahús með réttum útbúnaði og sérfræðingum.

Við þá ákvörðun þarf að vita hversu langur tími fer í flutning milli sjúkrahúsa og meta kosti þess að hefja meðferð strax í héraði eða flytja sjúkling.

Í máli Óttars kom fram að læknar eystra byggju við aðrar aðstæður en syðra þar sem þeir þyrftu að gera nær allt sjálfir sem lyti að meðhöndlun sjúklinga með bráðakransæðastíflu. Nú væri hægt að senda upplýsingar suður á sérfræðinga úr spjaldtölvu sem flýtti fyrir.

Að meðaltali tók það lækna HSA 1,22 klukkustundir að greina vandamálið. Gallinn væri hins vegar að sjúklingar biðu of lengi með að leita til læknis frá því að einkenni kæmu fram. Það er í samræmi við aðrar rannsóknir hérlendis.

Óttar sagði einkennin yfirleitt greind rétt og brugðist við eftir því. Sjúklingar væru ýmist fluttir á Norðfjörð eða sendir af svæðinu, meðal annars því ekki hafi alltaf verið fært þangað.

Allir þeir sem þurftu í hjartaþræðingu komust á Landsspítalann innan 36 tíma. Óttar sagði hins vegar að læknar eystra mættu vera óragari við að gefa lyf og minnti á ábyrgð þeirra við ákvörðun um flutnings sjúklinga.

„Ábyrgðin liggur hjá okkur þar til sjúklingurinn er kominn í sjúkraflug. Við vitum líka yfirleitt meira um ferðatíma og veður heldur en læknarnir á Landsspítalanum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.