Krefjast þess að eldi fari fram í lokuðum kvíum með geldfiskum

Aðalfundur Veiðifélags Breiðdæla krefst þess að gripið verði til ráðstafana gegn fiskeldi í opnum sjókvíum til að vernda villta laxastofna. Félagar telja eftirlitsstofnanir hafa verið of lin gagnvart eldisfyrirtækjum.

Í ályktun frá aðalfundinum, sem haldinn var á föstudag, er eldi í opnum sjókvíum mótmælt harðlega og skorað á stjórnvöld að grípa til aðgerða með náttúruvernd og framtíð þjóðarinnar í huga.

Í ályktunni er því haldið fram að fiskeldið í Berufirði sé rekið á undanþágu samkvæmt gömlum reglum. Heimildir hennar séu ófullnægjandi, til dæmis sé ekki tekið sérstaklega fram í starfsleyfi að heimilt sé að ala frjóan fisk eða losa fosfór í sjóinn, sem sé uppistaðan í spillandi úrgangi frá eldinu.

Eldið er sagt lögleysa og trúverðugleiki þeirra stofnana, sem gefið hafi út leyfin og sinni eftirliti, sé í molum.

Bent er á að nýverið hafi laxeldisleyfi verið boðin upp í Noregi. Eldistonnið hafi þar kostað tæpar 2,6 milljónir íslenskra króna sem renni til ríkis og sveitarfélags en sömu leyfi séu nær ókeypis hérlendis. „ Þessar staðreyndir sýna svart á hvítu hvernig Íslendingar láta norska eldisrisa hafa sig að féþúfu og ætla að fórna villtum laxastofnum til viðbótar sem þykja þó einstæðir og á heimsvísu,“ segir í ályktuninni.

Enn fremur segir í ályktuninni að alls staðar þar sem fiskur sé alinn í opnum sjókvíum sleppi fiskur og valdi skaða á umhverfi með erfðablöndun og sjúkdómasmiti. Vísað er til þess á Arnarfirði hefur nýlega verið veitt leyfi til að eitra fyrir laxalús, sem til dæmis fisksjúkdómanefnd hafi lagst gegn. Hvatt er til þess að fylgja norskum fordæmum sem byggi á reynslu um að allt eldi fari í lokuð kerfi.

Þegar hafa verið gefin út leyfi til að ala 12 þúsund tonn af laxi og regnbogasilungi á Austfjörðum en sótt hefur verið um leyfi fyrir 54 þúsund tonnum í viðbót.

Í ályktun aðalfundarins er varað við að slíkt eldi ógni lífríkinu. Því krefjist fundurinn þess að allt eldi fari fram í lokuðum kerfum og bannað verði að nota frjóan fisk til eldis af útlenskum uppruna. „Fiskeldi í opnum sjókvíum við strendur landsins með frjóum fiski af norskum uppruna eru hamfarir gegn náttúrunni og íslenskum hagsmunum,“ segir að lokum í ályktuninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar