Kristrún Frostadóttir: Erum í mikilli innviðaskuld

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að sú stefna að borga niður skuldir ríkissjóðs á árunum eftir hrun hafi verið á kostnað innviðauppbyggingar í landinu. Logi Einarsson, þingflokksformaður, segir að skoða verði með opnum hug kosti í samgöngumálum til að styrkja byggðasvæði til að mynda mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum fundi sem þau héldu á Seyðisfirði í gær. Þau funduðu einnig á Norðfirði og Vopnafirði. Ferðin er farin í tengslum við stefnumótun Samfylkingarinnar þar sem haldnir eru opnir fundir ásamt heimsóknum í fyrirtæki og stofnanir.

Áhersla fundanna var á atvinnu og samgöngur. Þess vegna fór fundurinn á Seyðisfirði svo gott sem í að ræða Fjarðarheiðargöng. Logi tók þungann af þeirri umræðu, enda málinu kunnugri sem þingmaður Norðausturkjördæmis.

Hann svaraði gagnrýni um að þingmenn kjördæmisins hefðu ekki verið nógu grimmir í að tala fyrir Fjarðarheiðargöngum inni á þingi á þá vegu að þeir hefðu ekki alltaf talað mikið um málið út á við en þeir hefðu oft fundað um það sín á milli.

Hver er besta leiðin til að tengja Austurland?


Logi velti hins vegar upp álitaefnum varðandi hagkvæmni ganganna. Hann sagði að í ljósi þróunar, svo sem aukinnar eldvirkni á Reykjanesi, þyrfti að horfa á hvernig Ísland hafi byggst upp í áranna rás. Hann sagði íbúaþróunina „klaufalega“ og styrkja yrði önnur svæði á landinu sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Það yrði gert með að styrkja svæði sem borið gætu 30-40 þúsund manns ekki dreifingu kraftanna í margar smábyggðir. Hann taldi Eyjafjarðarsvæðið og Austurland best til þess fallin.

Hann sagði að til að geta talið öðrum landsmönnum um hagkvæmni jafn umfangsmikillar framkvæmda og jarðganga á Austurlandi þyrfti að sýna fram á að svæðið gæti vaxið verulega á næstu áratugum. Á sama tíma vekti það áhyggjur hans að dýr Fjarðarheiðargöng nú gætu orðið til þess að langt yrði þar til haldið yrði áfram með önnur göng á svæðinu og fullkomna mikilvæga hringtengingu byggða á Austfjörðum því þrýst væri á göng eða stórar framkvæmdir víðar á landinu.

Logi fékk nokkuð hörð viðbrögð á þessar vangaveltur og var meðal annars bent á að fyrir lægju ítrekaðar samþykktir svo sem frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi um að Fjarðarheiðargöngin væru næst í forgangsröðinni. Logi tók strax í upphafi fram að ef samfélögin á Seyðisfirði og Egilsstöðum væru ákveðin í að Fjarðarheiðargöngin væru rétta leiðin þá yrði staðið við það.

Hann sagðist hins vegar hafa verið hugsi upp á síðkastið um hvernig afla mætti breiðs stuðnings við jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi og almennt nýta fjármuni til samgöngumála sem best. „Það er óábyrgt af mér, sem þarf að greiða atkvæði um samgönguáætlun eftir 2-3 mánuði, að spyrja ekki þeirrar spurningar hver sé líklegasta leiðin á næstu áratugum til að búa til eina öfluga heild úr öllu þessu svæði.“

Tvö kjörtímabil til að greiða upp innviðaskuldina


Kristrún gagnrýndi að engar jarðgangaframkvæmdir hefðu verið í gangi síðan 2020 þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð og „ekki einu sinni bor í landinu.“ Erfitt gæti verið að komast af stað aftur eftir slík hlé. Hún lýsti samgönguáætlun sem „óskalista ráðherra“ sem væri án fjármögnunar. Alþingi hefur nýja samgönguáætlun til meðferðar og eru Fjarðarheiðargöng þar fremst í jarðgangaröðinni. Logi og Kristrún sögðust ekki eiga von á öðru en áætluninni yrði samþykkt óbreytt af Alþingi.

Hún sagði að eftir hrun hefði áhersla verið að borga upp „bókhaldslegar skuldir“ sem hefðu skilað íslenska ríkinu einni bestu skuldastöðu heims. Það hefði hins vegar leitt til mikillar innviðaskuldar. Tvö til þrjú kjörtímabil þyrfti til að greiða hana niður en til þess þyrfti þolinmæði og samstöðu.

Kristrún lýsti ánægju með að umræðan um veggjöld hefði opnast, orðið hefði verið bannorð þegar hún kom fyrst inn í stjórnmálin árið 2021. Hún nefndi að í Noregi væri samgönguverkefnum flýtt með slíkri fjármögnun.

Hugsi yfir samskiptum Seyðfirðinga við Múlaþing vegna fiskeldismála


Fleiri málefni komu til umræðu í Herðubreið í gær, svo sem fiskeldi í sjó. Kristrún styðja kröfu um að nærsamfélagið hefði úrslitaáhrif um hvort atvinnugreinin væri starfsrækt þar en hún hefði líka skilning á stuðningi þar sem eldið hefði byggt upp samfélög. Ekki væri sjálfgefið að afskrifa heila atvinnugrein. Hún sagðist þó hugsi yfir stöðu Seyðfirðinga gagnvart Múlaþingi og fyrirheitum sem gefin voru við sameiningu. „Ég er mest hugsi yfir samskiptum ykkar við þetta stóra sveitarfélag.“

Hún notaði tækifærið til að gera grín að 10% aðhaldskröfu á fiskeldissjóð, sem gerð hefði verið í fjárlögum 2024 af hálfu fjármálaráðuneytisins. Sjóðurinn var stofnaður til að dreifa út rentu af fiskeldisfyrirtækja til sveitarfélaga þar sem starfsemin er, en þau þurfa að sækja um í sjóðinn til úthlutunarnefndar.

Tilgangur fundarferðarinnar var að fá álit fólks á væntri stefnu Samfylkingarinnar. Á umræðum um fiskeldið í gær mátti greina skiptar skoðanir meðal Seyðfirðinga, eða öllu heldur áhyggjur af stöðunni í atvinnumálum sem yrðu einhæfari með lokum frystihússins. Miklar árstíðasveiflur eru í ferðaþjónustunni, sérstaklega meðal jarðganga nýtur ekki við. Þá er stór hluti atvinnusvæðis staðarins á hættusvæði vegna ofanflóða. Á sama tíma skortir húsnæði og starfsfólk.

Skýra löggjöf um orkumálin


Hvað ferðaþjónusta varðaði viðraði Kristrún þá hugmynd að tekinn yrði upp náttúrupassi, það er seldur aðgangur að vinsælustu náttúruperlunum í eigu ríkisins, til að afla tekna, líkt og gert sé í Bandaríkjunum.

Aðspurð um orkumál svaraði Kristrún að ekki kæmi til greina að selja Landsvirkjun. Einkaaðilar gætu byggt upp vind- og sólarorkuver en um það yrði að móta skýra löggjöf og tryggja skattheimtu sem renni til nærsamfélagsins.

Logi ræddi kröfur íbúa á landsbyggðinni til opinberrar þjónustu og sagði hvort tveggja veikst. Nú færu íbúar fyrst og fremst fram á að komast í sjúkraflug meðan krafan ætti að vera að hafa heilbrigðisþjónustuna til staðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar