Kröfu um stöðvun samnings um sorphirðu hafnað
Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfu GS Lausna um að stöðva tafarlaust samning Fljótsdalshrepps og Múlaþings við Íslenska gámafélagið um sorphirðu, gámaflutninga, gámaleigu og tengda þjónustu. Nefndin kannar hins vegar hvort rétt hafi verið staðið að samningnum.Úrskurðurinn féll í lok janúar en var nýverið birtur á úrskurðarvef Stjórnarráðsins. GS Lausnir lögðu fram kæru í desember gegn Múlaþingi og Íslenska gámafélaginu. Úrskurðarnefndin mat það svo að málið varðaði einnig hagsmuni Fljótsdalshrepps og var sveitarfélaginu kynnt kæran.
Í kjölfar breytinga laga þar með fyrirkomulags sorphirðu í fyrra sömdu Múlaþing og Fljótsdalshreppur þann 9. nóvember í fyrra við Íslenska gámafélagið að halda áfram þjónustu sinni til sex mánaða, með möguleika á framlengingu út þetta ár. Gámafélagið hefur séð um sorphirðu í sveitarfélögunum frá árinu 2016.
Það var gert án útboðs. GS Lausnir kröfðust þess að samningurinn yrði ógiltur, verkið boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Íslenska gámafélagið yrði sektað og því gert að greiða GS Lausnum skaðabætur. Þá var óskað eftir áliti kærunefndarinnar á því að hvort farið hefði verið eftir lögum um opinber innkaup, um EES og stjórnsýslulögum.
Í úrskurðarorðum segir að kröfugerð GS Lausna sé óljós en líta verði svo á að hún feli í sér kröfu um stöðvun samningsgerðar. Þeirri kröfu hafnar nefndin með þeim orðum að bindandi samningur verði ekki felldur úr gildi eða honum breytt útboð eða ákvörðun um gerð samnings teljist ólögleg.
Nefndin hefur aðra þætti kærunnar enn til meðferðar og stendur gagnaöflun yfir.