Kynna aðgerðaáætlanir fyrir Stórurð og Dyrfjallasvæðið
Byggja skal upp aðkomuleið að náttúruvættinu Stórurð sem verður fær ökutækjum eins og fjór- eða sexhjólum sem björgunar- og viðbragðsaðilar nota gjarnan ef koma þarf fólki til bjargar á afviknum stöðum. Slíkt skal koma til framkvæmda á næstu þremur árum ef fjármagn fæst til.
Þetta eitt af því sem fram kemur í sérstakri aðgerðaráætlun Umhverfisstofnunar en í henni er forgangsraðað þeim aðgerðum sem brýnt er að fara í til að varðveita verndargildi svæðisins norðan Dyrfjalla og Stórurðar. Aðgerðaáætlunin er hluti stjórnunar- og verndaráætlunar þessa svæðis en drög að þeirri áætlun er núna til opinberrar kynningar og hægt verður að gera athugasemdir við næstu sex vikurnar.
Umhverfisstofnun er ábyrgðaraðili áætluninnar sökum þess að Stórurð var friðlýst árið 2021 en meðal annars sökum ágangs ferðafólks er talin þörf á að setja reglur til að auka öryggi gesta en ekki síður varðveita svæðið til framtíðar.
Í viðbót við stíg fyrir létt ökutæki viðbragðsaðila alla leið að Stórurð telur stofnunin þörf á að útbúa sérstakt svæði þar sem viðbragðsaðilar geta athafnað sig með björgunartæki og búnað en slíkt svæði er talið heppilegast í svokölluðu Mjóadalsvarpi. Bæta skal allar merkingar til muna og þar bæði um að ræða fræðsluskilti og merkingar um bann við brottnámi steingervinga og friðaðra steinda.
Fleira sem þarf að gerast á svæðinu í framtíðinni að mati stofnunarinnar er að unnin verði áætlun um uppbyggingu göngu- og hjólaleiða innan svæðisins og stað- og skrásetja lendingarstaði björgunarþyrlna ef slys eða óhöpp verða á þessum slóðum.
Mynd tekin við friðlýsingu Stórurðar fyrir tæpum þremur árum síðan en sérstök verndar- og aðgerðaáætlun hefur nú verið gerð og kynnt fyrir svæðið. Mynd GG