Lagarfljótsormurinn lætur úr höfn

Héraðsbúar fylgdust með því á sunnudagsmorgun þegar ferjan Lagarfljótsormurinn var dreginn á nýjan stað. Undanfarinn áratug hefur ferjan staðið óhreyfð við Lagarfljótsbrú.

Það voru félagar í björgunarsveitinni Ísólfi sem toguðu ferjuna á nýjan stað en henni hefur verið komið fyrir neðan við bæinn Setberg í Fellum. Þar er núverandi eigandi hennar, Hlynur Bragason, uppalinn.

Ferjan var smíðuð í Rússlandi árið 1992 en kom austur á Hérað árið 1999 frá Svíþjóð. Árin á eftir sigldi ferjan milli Atlavíkur og Egilsstaða. Undanfarinn áratug hefur ferjan verið á landi í ferjuhöfninni sem gerð var við austurenda Lagarfljótsbrúar.

Ferjan hefur gengið eigenda á milli og um tíma voru uppi hugmyndir um að breyta henni í veitingastað en hún tekur 110 manns í sæti. Fyrir því fékkst ekki leyfi.

Ferjan var sett á flot í vatnavöxtunum í lok september.

Mynd: Antóníus Bjarki Halldórsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar