„Landvarðastarfið er bæði skemmtilegt og gefandi”
„Störf innan náttúruverndar munu færast í aukana hér á Austurlandi líkt og þróun hefur sýnt annarsstaðar á landinu og ég get ekki annað en hvatt áhugasama til þess að kynna sér þetta,” segir Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri hjá Fjarðabyggð um landvarðanámskeið sem Umhverfisstofnun stendur fyrir í febrúar.
Landvarðarnámskeið Umhverfisstofnunar verður haldið í febrúar. Á heimasíðu stofnunarinnar segir að þeir sem nemendur sem ljúka landvarðarnámskeiði ganga fyrir um landvarðastörf í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með námskeiðinu en kennarar koma jafnframt frá öðrum þjóðgörðum, Minjastofnun og víðar að.
Námskeiðið er kennt í lotum og spannar 110 kennslustundir sem raðast niður á fjórar vikur (hefst 31. janúar og lýkur 24. febrúar). Hluta þess verður hægt að taka í fjarnámi en námskeiðið er annars kennt í Mosfellsbæ og í vettvangsferðum. Áhugasamir geta lesið sér frekar til á síðu Umhverfisstofnunar.
Gott að landverðir hafi góða staðarþekkingur
„Landvarðastarfið er bæði skemmtilegt og gefandi en sjálf er ég með landvarðaréttindi og hef unnið sem slíkur. Þeir sem því sinna koma úr nær öllum greinum þjóðfélagsins, ungir námsmenn, prófessorar og verkafólk og ég þekki marga sem hafa búið til flottan starfsferil tengdan landvörslu.
Landverði þarf í Vatnajökulsþjóðgarð einnig er framboð landvarða á svæðinu af skornum skammti og svæðið stórt og ef verður aukið við landvörslu á svæðinu þá er gott og þarft að þeir sem því sinna hafi góða staðarþekkingu,” segir Anna Berg.