Langmesta kjörsóknin í Fljótsdal
Hlutfallslega besta kjörsóknin í forsetakosningunum á Austurlandi um síðustu helgi var í Fljótsdalshreppi. Lökust var hún hins vegar í Vopnafjarðarhreppi.Þetta kemur fram í tölum frá yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis.
Besta kjörsóknin var sem fyrr segir í fámennasta sveitarfélaginu, Fljótsdalshreppi, þar sem 83,1% þeirra sem voru á kjörskrá kusu, eða 59 af 71. Lökust var kjörsóknin hins vegar á Vopnafirði, þar kusu 292 af 486 eða 60,1%.
Kjörsókn á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og Borgarfirði náði yfir 70% en ekki í Fjarðabyggð og Djúpavogshreppi.
Meðalkjörsókn í austfirsku sveitarfélögunum var 68,2%, sem er aðeins minna en í kjördæminu í heild þar sem hún var um 69% en heldur meiri en á landsvísu sem var 66,9%. Guðni Th. Jóhannesson hlaut 93,4% atkvæða í kjördæminu en mótframbjóðandi hans, Guðmundur Franklín Jónsson, 6,6%.
Kjörsókn á Austurlandi
Sveitarfélag Kjörskrá Kusu Kjörsókn
Vopnafjarðarhreppur 486 292 60,1%
Fljótsdalshreppur 71 59 83,1%
Fljótdalshérað 2573 1866 72,5%
Borgafjarðahreppur 94 66 70,2%
Seyðisfjarðakaupstaður 495 368 74,3%
Fjarðarbyggð 3324 2152 64,7%
Djúpavogshreppur 307 207 68,5%