Lausagöngufé fellt í Loðmundarfirði

Tæplega þrjátíu útigangskindur voru felldar í Loðmundarfirði um síðustu helgi í aðgerðum á vegum Matvælastofnunar og þriggja sveitarfélaga á Austurlandi. Ekki var talið hægt að ná kindunum með öðrum leiðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Matvælastofnun (MAST) sendi frá sér í morgun. Á laugardag fór fimm manna hópur í Loðmundarfjörð, sem er milli Borgarfjarðar og Seyðisfjarðar, skipaður dýraeftirlitsmanni MAST og fjórum aðstoðarmönnum.

Alls fundust 29 kindur í firðinum, 18 voru frá einu býli, tíu ómerktar og ein frá öðrum bæ. Ekki var talið unnt að ná fénu og var það því fellt á grundvelli laga um velferð sauðfjár. Þar segir meðal annars að bannað sé að hafa fé á útigangi á vetrum þar sem ekki verði komið við fóðrun og reglubundnu eftirliti.

Aðgerðir hafa staðið yfir í vetur til að ná fé úr firðinum en í tilkynningu MAST segir að stofnunin hafi margsinnis haft afskipti af því býli sem átti flestar kindurnar á undanförnum árum.

Bóndanum var gefinn frestur til 1. febrúar til að endurheimtaféð úr Loðmundarfirði, sem hann gerði að hluta. Kröfum MAST hefur hins vegar ekki verið fylgt til fulls.

„Ástand fjárins var breytilegt. Flest var horað, enda beit lítil. Margar kindurnar voru styggar og margreifaðar sem gefur til kynna að þær hafi gengið lausar um einhvern tíma. Sumar ærnar voru lembdar,“ segir í tilkynningunni.

Aðgerðirnar voru skipulagðar á fundi sveitastjórna Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs í byrjun mars.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.