Lausn að flytja inn lækna?

Kristín Björg Albertsdóttir, sem um síðustu mánaðarmót lét af störfum sem forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, telur koma til greina að leita út fyrir landsteinana til að ráða bót á læknaskorti á landsbyggðinni.


Þetta kemur fram í viðtali við Kristínu í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hún tók við starfi forstjóra HSA haustið 2013 en flutti sig nýverið um set vestur á firði.

Löngum hefur reynst erfitt að manna læknastöður hjá HSA og að undanförnu hefur verið reynt að fara aðrar leiðir á heilsugæslunni á Egilsstöðum, til dæmis að auka ábyrgð sjúkraþjálfara og hjúkrunarfræðinga.

Spurning um að horfa lengra?

Læknaskorturinn er hins vegar engan vegin bundinn við Austurland. Kristín bindur vonir við að fjöldi Íslendinga sem er í læknanámi erlendis skili sér heim en veltir jafnframt upp hvort ekki sé rétt að skoða nýjar leiðir.

„Það er spurning hvort ekki sé rétt að horfa lengra, til dæmis til Austur-Evrópu, og sækja lækna þangað. Læknar í þessum löndum ná ekki endilega að fylla upp í vinnuskyldu sína heima fyrir.

Við þekkjum nýlegt dæmi um lækni þaðan sem vann að hluta á Spáni en kom á Landspítalann. Hann var alsæll með vinnuaðstæður og kjörin og þótti standa sig vel. Ég held að það væri æskilegt að við skoðuðum að flytja inn lækna.“

Hægt að yfirstíga tungumálaörðugleika

Setja má vara við tungumálaörðugleikum í samskiptum sjúklings og læknis en Kristín telur það yfirstíganlegt.

„Flestir Íslendingar eru enskumælandi og það er til dæmis hægt að spyrja sjúklinga hvort þeir tali ensku og beina þeim til viðkomandi lækna. Við höfum þrjá pólska lækna á Norðfirði sem hafa náð góðu valdi á íslenskunni og reynst okkur vel.

Íslendingar eiga fullt af læknum en stór hluti þeirra kýs að vera erlendis. Þeir hafa alltaf getað gengið að því sem vísu að geta komið heim hvenær sem er og fengið vinnu en það gæti snúist við einn daginn ef það verður eftirsóknarvert að koma hingað.“

Sterkir kjarnar forsenda mönnunar

Víða hefur gengið erfiðlega að manna einmenningshéruð en Kristín segir Austfirðinga hafa verið heppna í þeim málum.

„Íbúafjöldi þeirra leyfir ekki meira en einn lækni og í þeim höfum við haft mikinn stöðugleika, svo sem á Vopnafirði og á Seyðisfirði. Það vantar núna lækni á Djúpavog en við höfum auglýst eftir lækni þangað.

Vaktbyrðin er mikil í þessum héruðum en að sama skapi er minna álag á vöktunum samanborið við stærri svæði. Fyrir þá sem eru tilbúnir að gefa sig í að binda sig á vöktum getur vinnan verið fjölbreytt og skemmtileg. Á móti verður að tryggja að menn fái afleysingar þannig að þeir geti annað slagið um frjálst höfuð strokið.

Það veltur á að á okkur takist að manna vel þessa stærri kjarna, Egilsstaði og Fjarðabyggð, þannig getum við stutt við einmenningshéruðin með því að senda þangað lækna í afleysingar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar