Laxar fá leyfi fyrir 3000 tonnum í viðbót í Reyðarfirði

Matvælastofnun veitti í dag fiskeldisfélaginu Löxum rekstrarleyfi til að bæta 3000 tonnum við eldi fyrirtækisins í Reyðarfirði. Fyrir hefur það leyfi til að ala 6000 tonn af laxi.

Laxar eru í dag með eldi við Gripalda, Sigmundarhús og Bjarg. Með leyfinu í dag bætist við heimild til að koma fyrir sjókvíum á fjórum stöðum í utanverðum firðinum, annars vegar við Rifsker að norðanverðu, hins vegar við Kolmúla, Vattarnes og Hafranes í firðinum sunnanverðum.

Fyrirtækið mun þar með hafa leyfi til að ala allt að 9000 tonn af frjóum laxi í firðinum. Nýstaðfest áhættumat gerir ráð fyrir að þar sé hægt að ala allt að 14.000 tonn.

Fyrirtækið sótti í byrjun október 2017 um heimild til að ala 10.000 tonn og bíður umsókn upp á 7.000 tonn því enn afgreiðslu. Þá hefur fyrirtækið kynnt áætlun um umhverfismat á 4000 tonna eldi til viðbótar.

Í áliti Skipulagsstofnunar á umsókn Laxa um að ala 10.000 tonn af frjóum laxi er varað við neikvæðum áhrifum af eldinu á vistkerfið í sjónum í næst kvíunum og ógn sem villtu laxastofnum í nálægum ám geti stafað af eldinu. Þar segir að stofnunin telji eldi í slíku magni getað haft veruleg neikvæð áhrif á villta stofna.

Hún telur neikvæðustu áhrifin vera af því ef sjúkdómar og laxalús berist í villta stofna. Fjallað er sérstaklega um nýrnaveiki, sem kom upp í eldi Laxa í Reyðarfirði árið 2018 en hefur ekki greinst aftur eftir slátrun það ár. Þá er komið inn á að nýrnaveiki sé algeng í klakfiski úr Breiðdalsá en hún virðist ekki valda einkennum eða afföllum.

Sömu sögu er að segja um IPN-veiru sem greindist í eldislaxi Laxa í Reyðarfirði síðasta haust. Samkvæmt áliti stofnunarinnar er ekki talin veruleg hætta á að laxalús berist úr laxi í eldinu í villtan lax en ráðlagt að fylgjast vel með.

Í rekstrarleyfinu er meðal annars að finna skilyrði um að áhrif eldisins á vistkerfi í nágrenninu verði vöktuð, viðbrögð við sleppingum vel skilgreind og eldissvæðin lýst upp í skammdeginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.