Leggja til að Héraðslistinn bjóði ekki fram

Stjórn Héraðslistans, samtaka félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði, hefur ákveðið að leggja til að listinn bjóði ekki fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Ástæðan er að enginn finnst til að leiða listann.

„Við höfum ekki fundið þann einstakling sem tilbúinn er að taka oddvitasætið eða vera inni í bæjarstjórn,“ segir Sigrún Blöndal, fráfarandi oddviti listans.

Hún situr í bæjarstjórninni fyrir hönd listans ásamt Árna Kristinssyni en bæði gáfu út í byrjun árs að þau vildu ekki halda áfram. Bæði hafa setið í bæjarstjórn frá 2010. Listinn myndar meirihluta ásamt Á-lista og Sjálfstæðisflokki.

Sigrún segir að hvorki sé um málefnalegan ágreining innan listans að ræða né sé vandamál að manna önnur sæti listans. Enginn fáist hins vegar til að taka lykilsætin.

Tillagan verður tekin fyrir á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á Gistihúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 14. apríl klukkan 10:30.

Framboð félagshyggjufólks bauð fyrst fram á Austur-Héraði árið 1998 og náði þá þremur mönnum inn í níu manna bæjarstjórn. Framboðið fékk síðan flest atkvæði í sveitarfélaginu 2002 og 2004. Nafnið Héraðslistinn kom fyrst fram í kosningunum 2004.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.