Orkumálinn 2024

Leggjast eindregið gegn netsölu á áfengi

Fagráð Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sem skipað er sjö sérfræðingum sem starfa hjá stofnuninni, leggst eindregið gegn því að heimiluð verði netsala á áfengi og heimsending úr innlendum verslunum. Þetta kemur fram í ályktun sem fagráðið sendi frá sér í vikunni.

Tilefni ályktunarinnar er frumvarp dómsmálaráðherra sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda fyrr á árinu en hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi. Miklar umræður sköpuðust um efni frumvarpsins þegar það var til umsagnar í gáttinni og 25 umsagnir um það komu fram frá ýmsum aðilum.

Segja áfengi olíu á eld

Fagráðið telur enga knýjandi þörf á því að auka aðgengi að áfengi og vísar sérstaklega til þess að áfengisneysla sé mikil byrði á samfélaginu.
„Áfengi er ósjaldan orsakaþáttur slysa og ofbeldisverka, ekki síst gagnvart börnum og aðstandendum þeirra sem neyta áfengis. Það er einnig skaðlegt þeim sem neytir þess og veldur skemmdum á heila, lifur og maga og stuðlar að myndun krabbameina svo fátt eitt sé nefnt. Þá er áfengi sem olía á eld andlegra sjúkdóma með áhrifum sínum á heila og taugar,“ segir í ályktuninni.

Vísa til umsagnar IOGT

Þá segir ráðið að vandaðar rannsóknir hafi sýnt gagnsemi þess fyrir samfélög og lýðheilsu að hefta aðgengi að áfengi. Um þetta vísar fagráðið sérstaklega í umsögn sem bindindissamtökin IOGT sendu inn vegna frumvarpsins.

Fagráð HSA skipa þau Gullveig Ösp Magnadóttir iðjuþjálfi, sem er formaður ráðsins, Steinunn Ingimarsdóttir lífeindafræðingur, Kolbjörg Benediktsdóttir sálfræðingur, Már Egilsson heimilislæknir, Sigurfinnur Líndal hjúkrunarfræðingur, Berglind Andrésdóttir hjúkrunarfræðingur og Þorbjörg Sigurbjörnsdóttir sjúkraliði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.