Leit hætt vegna veðurs
Leit að Axel Jósefssyni Zarioh, sem talinn er hafa fallið frá borði af skipinu Erling KE-140 sem kom inn til hafnar á Vopnafirði á mánudag, hefur verið hætt í dag vegna versnandi veðurs.Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi kemur fram að vaxandi vindur á Vopnafirði hafi gert leitarskilyrði erfið. Leitað var í dag frá svæðinu frá Tangasporði inn að Sandvík.
Leitað hefur verið án árangurs í dag, líkt og aðra daga frá því á mánudag. Í dag var meðal annars notast við björgunarpramma frá björgunarsveitinni Lífsbjörg í Snæfellsbæ. Pramminn er með glæran botn og í gegnum hann má sjá niður á botn á grunnsævi. Að auki hefur verið leitað meðfram ströndum og sandfjörur eknar.
Leitarskilyrði verða metin í fyrramálið og leit skipulögð út frá aðstæðum. Í tilkynningunni kemur einnig fram að Axel sé á nítjánda aldursári og að hann sé búsettur í Kópavogi.
Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var Axel meðlimur í 15 manna áhöfn Erlings KE-140. Skipið er í eigu Saltvers ehf. í Keflavík en Brim hf. leigir skipið og er skráður útgerðaraðili þess. Það hefur verið gert út á grálúðuveiðar og landað á Vopnafirði. Þar var landað úr því rúmu tonni af fiskinum á mánudag. Erling lét úr höfn á Vopnafirði á þriðjudagskvöld.