Leita áfram að makríl innan íslensku lögsögunnar

Makrílveiðar eru áfram rysjóttar innan íslensku lögsögunnar. Sum skip hafa leitað á ný til suðurs meðan önnur halda áfram í norður.

Þegar leið á síðustu viku fóru skipin að feta sig norður á bóginn. Nyrst þeirra er Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar, í sinni fyrstu ferð á þessari vertíð.

Þar aðeins sunnar eru skip Eskju og Brims, sem eru í veiðisamstarfi en enn sunnar eru skip Samherja og Síldarvinnslunnar, sem einnig eru í samstarfi.

„Þetta hefur gengið fram og baka. Einhver skip eru komin sunnar. Þegar veiðin er svona blettótt fara menn að leita,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Veiðin hófst í byrjun júlí og hefur nær öll verið innan íslensku landhelginnar, þó nærri landhelgislínunni. Nokkur skip fóru fyrst í Smuguna en komu fljótt til baka. „Undanfarin ár hefur veiðin verið í íslenskum sjó fram undir verslunarmannahelgi en þá færst yfir í Smuguna. Það er líklegt að það endurtaki sig.“

Í Neskaupstað er verið að ljúka við að landa um 1000 tonnum úr Berki NK. „Vertíðin hefur gengið ágætlega, bæði veiðar og vinnsla og markaðir líta þokkalega út. Við erum því þokkalega bjartsýn fyrir vertíðina.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.