Leita til almennings varðandi ný atvinnutækifæri á Seyðisfirði

Múlaþing hyggst leita til almennings varðandi hugmyndir að atvinnuskapandi starfsemi til framtíðar á Seyðisfirði í kjölfar lokunar bolfiskvinnslunnar á staðnum.

Um leið og ljóst varð að Síldarvinnslan (SVN) hygðist hætta bolfiskvinnslu á Seyðisfirði sem kunngjört var snemma í septembermánuði var settur á laggirnar sérstakur starfshópur sem greina skal tækifæri varðandi framtíðaruppbyggingu í bænum. Í þeim hópi eru fulltrúar frá Múlaþingi, Síldarvinnslunni, Austurbrú auk heimastjórnar Seyðisfjarðar. Vinnsla SVN mun starfa fram á næsta vor en fiskimjölsverksmiðja fyrirtækisins mun starfa áfram.

Nú hefur starfshópurinn formlega óskað eftir hugmyndum frá almenningi um hvers kyns atvinnuskapandi starfsemi sem gagnast getur bænum og skapað þar heilsársstörf til að vega upp á móti lokun fiskvinnslunnar og því heitið að allar góðar hugmyndir verði skoðaðar og það með mögulega fjárfestingu í huga. Engar kröfur eru gerðar til eðlis eða staðsetningar svo lengi sem hugmyndirnar þykja líklegar til að skapa ný heilsársstörf í byggðalaginu.

Áhugasamir hafa tæpar þrjár vikur, til 22. nóvember, til að koma hugmyndum sínum á framfæri við hópinn en þeim skulu fylgja greinargerð um helstu verkþætti og fjárhagsáætlun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar