Leitað meðan mannskapurinn getur

Um 200 manns eru skráðir virkir við leit að rjúpnaskyttu sem leitað hefur verið að á Völlum á Héraði síðan um klukkan átta í gærkvöldi. Leit verður haldið áfram meðan hægt er.


„Það eru tugir hópa úti og verið að leita líklegustu svæðin,“ sagði Sveinn Halldór Oddsson Zoega, formaður svæðisstjórnar á Austurlandi, á fjórða tímanum í dag.

Um 200 manns eru skráðir í aðgerðina, flestir eru úti að leita en nokkrir í stjórnstöð eða í hvíld. Leitað verður fram eftir kvöldi.

„Við reynum að leita eins mikið og við getum meðan bjart er. Síðan leitum við áfram eins og þörf er á og við höfum af mannskap. Við reynum að hafa klárt fólk til að halda áfram og leitað verður meðan mannskapurinn getur.“

Horft eftir hundinum

Skyttan hélt til veiða ásamt tveimur félögum sínum frá sumarbústaðabyggðinni á Einarsstöðum á Völlum í gærkvöldi. Björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan átta í gærkvöldi þegar maðurinn skilaði sér ekki til baka.

Hann er vel búinn og vanur göngumaður með hund með sér. Ekkert hefur spurst til hundsins. „Nei, en besta vonin til að vinna manninn felst kannski í hundinum. Það hefur sést til hunda en ekki verið staðfest að það sé sá rétti.“

Vísbendingarnar virðast annars fáar en leitin hefur einkum beinst að Ketilsstaðaöxl þar sem félagarnir skildu í gær. „Það voru einhver spor nálægt þeim stað,“ segir Sveinn.

Erfiðar aðstæður

Svæðið er annars erfitt og leitarmenn fara um á skíðum og þrúgum. Mikill snjór hefur fallið á Héraði síðustu tvo sólarhring en fram að því var nánast autt og jörðin ófrosin. Hundslappadrífa hefur verið nær allan tímann sem leitin hefur staðið yfir og skyggni því takmarkað. Leitarsvæðið er einnig erfitt yfirferðar, mikil af giljum og grafningum og því erfitt að fara um á vélsleðum. „Skyggnið hefur ekki verið sérstaklega gott í dag en veðrið sleppur.“

Björgunarsveitir af öllu Austurlandi hafa verið að störfum ásamt liðsaukum frá Norðurlandi og suður í Öræfi. Fimmtíu manna hópur kom með flugi frá Reykjavík klukkan eitt. Þyrla Landhelgisgæslunnar hóf sig loks á loft til leitar frá Egilsstöðum klukkan fjögur „Það var gott að fá nýjan öflugan og óþreyttan hóp í hús. Hann er allur kominn út í verkefni.“

Uppfært 18:00

Þyrlan lenti á Egilsstöðum aftur rétt í þessu. Flug hennar skilaði engum nýjum upplýsingum.

Skollið er á myrkur og dregið verður úr leitinni. Enn er þó verið að kalla út fólk og nokkrir hópar halda áfram með ljós í kvöld og á nótt. Kraftur verður settur í leitina á ný þegar birtir í fyrramálið hafi hún þá ekki borið árangur.

rjupnaskytta leit 20161911 0100 web 

rjupnaskytta leit 20161911 0080 web

rjupnaskytta leit 20161911 0089 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.