Leitarprammi notaður í dag

Leitarprammi með glugga til að skanna botn á grunnsævi verður í dag notaður við leit að skipverja, sem talinn er hafa fallið útbyrðis af fiskiskipi á leið þess til hafnar á Vopnafirði á mánudag.

Leitað hefur verið að manninum linnulítið síðan þá. Víðtæk leit, með aðkomu björgunarsveita og tækja þeirra af Norður- og Austurlandi, var gerð á þriðjudag.

Eftir það var dregið úr umfanginu og hafa leitarflokkar síðan aðallega verið myndaðir af björgunarsveitarfólki frá Vopnafirði.

Það hóf leit að nýju um klukkan hálf átta í morgun. Það nýtur aðstoðar félaga úr björgunarsveitinni Lífsbjörg í Snæfellsbæ sem býr yfir leitartæki sem heitir Coastex, sem er leitarprammi með glugga til að skanna botn á grunnsævi.

Leitarsvæðið er hið sama og síðustu tvo daga, frá Tangasporði að Sandvík auk þess sem leitað verður í sandfjörum á svæðinu. Leitað verður á sjó í dag og meðfram strandlengjunni.

Leit til þessa engan árangur borið og engar vísbendingar gefið. Svæðið var leitað tvívegis í gær, bæði af sjó og landi.

Gert er ráð fyrir að aukinn þungi verði lagður í leitina um helgina, en hún er skipulögð frá degi til dags eftir aðstæðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar