Lekinn úr El Grillo minni en áður

Landhelgisgæslan og Umhverfisstofnun skoða nú leiðir til að bregðast við olíuleika úr skipinu El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Lekinn nú er á öðrum stað og minni en steypt var upp í nú í sumarbyrjun.

Kafarar á vegum Landhelgisgæslunnar köfuðu niður að skipsflakinu síðasta fimmtudag eftir að ábendingar bárust um olíumengun í firðinum.

Í ljós kom leki frá mannopi á tanki sem staðsetur er undir brú skipsins. Samkvæmt frétt Umhverfisstofnunar heftir set og drasl á dekki skipsins aðgengi að tankinum.

El Grillo var 10 þúsund tonna olíubirgðaskip sem lá á Seyðisfirði þegar þýskar flugvélar sökktu því í febrúar árið 1944. Árið 1952 var olíu dælt úr skipinu og aftur árið 2001, þegar rúm 60 tonn af hreinni olíu náðust úr því.

Þrátt fyrir þetta hefur af og til orðið vart við olíuleka úr skipinu þegar sjór í firðinum hlýnar á sumrin. Síðasta haust var kafað niður að skipinu til að kanna aðstæður. Í þeirri ferð kom í ljós að olía lak út vegna tæringar. Til að bregðast við því kom Landhelgisgæslan austur um miðjan maí og steypti í kringum til að þétta eftir að umhverfisráðherra veitti 40 milljónum til verksins.

„Góðu fréttirnar eru að þær að aðgerðin í vor heppnaðist því þar er ekki leki núna,“ segir Sigurrós Friðriksdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

„Lekinn núna er mun minni en undanfarin ár, áður en ráðist var í aðgerðirnar. Þetta virðist vera nýr leki því það sást enginn leki við þennan tank í vor,“ bætir hún við.

Eftir skoðunina síðasta haust var talið að enn væru 10-15 tonn eftir í skipinu. Því var ákveðið að minnsta kosti einu sinni á ári yrði kafað niður að því til að kanna aðstæður. Ferðin í síðustu viku var hins vegar farin sérstaklega vegna ábendinga um mengun. „Við vorum heppin að Landhelgisgæslan gat brugðist skjótt við,“ segir Sigurrós.

Stofnanirnar tvær skoða nú næstu skref og möguleika á að stöðva lekann. „Við tökum okkur þarf til að skoða málið, hvað hægt er að gera miðað við aðstæður, hvað það kostar og hverjir geta gert þetta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.