Líflegt í húsbyggingum á Borgarfirði

Framkvæmdir standa nú yfir við fleiri en eina nýbyggingu á Borgarfirði eystra. Meðal annars hafa tvö ný einbýlishús risið þar á síðustu mánuðum. Áfram er þörf á nýju húsnæði.

Utarlega við götuna Bakkaveg, gegnt gistihúsinu Álfheimum, standa yfir framkvæmdir við þrjú hús. Einbýlishús, sumarbústað og starfsmannahús fyrir gistihúsið. Innar við götuna er verið að verið að byggja nýtt íbúðarhús. Gegnt því var rifið eldra hús og framkvæmdir að hefjast við enduruppbyggingu.

„Starfsmannahúsið er 150 fermetra hús sem í raun er einbýlishús. Við getum breytt því síðar fyrir gistiaðstöðu eða hreint íbúðarhús,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Álfheima.

„Hugmyndin er að húsið geti hýst 10-12 starfsmenn. Ferðaþjónustuaðilar hér hafa verið í vandræðum með að finna húsnæði undir starfsfólk sitt síðustu ár. Við þurfum að bregðast við þeirri áskorun í rekstrinum,“ segir hann um framkvæmdina.

Húsið er hannað hérlendis en einingarnar eru smíðaðar erlendis og komu í tveimur gámum til landsins. Álfheimar þurfa á húsnæði að halda, hjá ferðaþjónustunni starfa um 20 manns á sumrin. Arngrímur Viðar segir sumarið líta vel út, fullt sé flestar nætur. Um 90% bókananna koma frá ferðaskrifstofum.

Úr kyrrstöðu síðustu tvö ár

Eftir margra ára hlé hófust húsbyggingar á Borgarfirði á ný þegar nýtt var úrræði frá ríkinu til að byggja parhús þar 2020. Síðan hefur verið töluvert um framkvæmdir, meðal annars risið tvö einbýlishús.

Í bókun heimastjórnar Borgarfjarðar, um húsnæðisáætlun Múlaþings, fyrr í vetur kemur fram að húsnæðisframboð hafi aukist á Borgarfirði síðustu tvö ár um níu einingar. Frá árinu 2018 hafi íbúum staðarins fjölgað um tæp 18% og staðan sé sú að þar skorti húsnæði. Ekki væri nóg þótt tíu íbúðareiningar bættust við.

Umhverfis- og skipulagsnefnd Múlaþings samþykkti nýverið að veita 80% afslátt af gatnagerðargjöldum á Borgarfirði til að örva framkvæmdir og efla byggðina. Um er að ræða fjórar lóðir við Bakkaveg, auk fjórar lóðir við Jörva auk nýrrar lóðar við enda Bakkavegar, sem hlaut heitið Bakkaflöt. Henni hefur þegar verið úthlutað og stendur til að reisa þar þrjú íbúðarhús, hvert um 52 fermetrar.

Vantar líka atvinnuhúsnæði

Þessu til viðbótar hefur heimastjórn vakið athygli á að stuðla þurfi að uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og hvatt til þess að gefa þar afslátt af gatnagerðargjöldum. Hvatningin byggir á athugun sem heimastjórn gerði síðasta sumar um þörf á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og var niðurstaðan sú að það skorti.

Inn í þetta spilar þörf á endurbótum á húsnæði slökkviliðs og björgunarsveitinni Sveinunga, sem eru í húsi sveitarfélagsins, Heiðinni. Verið er að skoða hvort Sveinungi geti keypt stærri hlut í húsinu og starfsemi sveitarfélagsins verði þá flutt í nýtt húsnæði.

alfheimar staffahus mars22 0011 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar