Listahátíð og Menningarmessa meðal nýrra verkefna í Fjarðabyggð

„Listahátíð Fjarðabyggðar verður haldin á tveggja ára fresti, sem og Menningarmessa. Menningar- og, komið verður á fót fræði- og listamannadvöl sem og menningartengdu fræðslustarfi í skólum sveitarfélagsins og vinnuskóla Fjarðabyggðar svo eitthvað sé nefnt,“ segir Dýrunn Pála Skaftadóttir, formaður Menningarnefndar Fjarðabyggðar, en með samþykkt nýrrar menningarstefnu Fjarðabyggðar og væntanlegrar Menningarstofu mun aðkoma sveitarfélagsins að stuðningi við hvers kyns menningarstarfsemi stóreflast.



Dýrunn Pála hefur ásamt fleirum unnið að verkefninu frá upphafi. „Í vorbyrjun 2015 var myndaður starfshópur sem hafði það að leiðarljósi að vinna að og mynda menningarstefnu Fjarðabyggðar sem áður hafði ekki verið til. Við fengum til liðs við okkur fólk úr grasrót menningarinnar á hverjum stað til þess að ræða hlutverk slíkrar stefnu og hvaða leiðir best væri að fara. Í kjölfarið var haldinn opinn fundur fyrir bæjarbúa auk þess sem fundað var með listafólki innan sveitarfélagsins. Þann fund sátu meðal annars fulltrúar Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði og Listasmiðjunnar í Neskaupstað sem voru að gera sambærilega hluti án þess að hafa hugmynd um tilvist hvors annars. Það var einmitt þá sem við áttuðum okkur almennilega á mikilvægi þess að skapa vettvang til þess að vinna saman að menningarverkefnum innan Fjarðabyggðar.“

Menningarstefnan var nýlega samþykkt innan bæjarráðs. „Ákveðið var að setja á fót svokallaða Menningarstofu og ráða starfsmann til þess að halda utan um menningarmálin í Fjarðabyggð og framfylgja menningarstefnunni. Sami starfsmaður verður einnig forstöðumaður Tónlistarmiðstöðvar Austurlands sem staðsett er á Eskifirði. Það er svo ríkt tónlistarlíf í Fjarðabyggð að það kom aldrei annað til greina en að draga Tónlistarmiðstöðina inn í verkefnið og halda áfram því frábæra starfi sem sr. Davíð Baldursson hefur leitt.“

 



Verkefninu ætlað að sameina sveitarfélagið

Dýrunn segir að Menningarstefnu Fjarðabyggðar sé ætlað að beisla hið menningarlega afl í þágu sveitarfélagsins og mannlífs þess, þvert á bæjarkjarna, landshluta og alþjóðleg landamæri.

„Það er svo mikið að gerast á hverjum einasta stað innan Fjarðabyggðar og því þarf að ná fram og efla. Við viljum með þessu tengja staðina, að við verðum ein heild og getum sammerkt okkur alls staðar, ekki að Norðfirðingar sæki aðeins viðburði í Neskaupstað eða Stöðfirðingar á Stöðvarfirði, heldur viljum við að það festist í sessi að menningin sé fljótandi og okkur þyki sjálfsagt að sækja viðburði á hvaða firði sem er, burtséð frá búsetu. Einnig að þeir sem eru að skapa menningarviðburði vinni saman þvert á búsetu. Þetta verkefni á að sameina okkur sem sveitarfélag og ég hef fulla trú á að svo verði.

Við hér í Fjarðabyggð búum einstaklega vel með það að hafa næga atvinnu en við megum ekki vera bara vinnusamfélag, menningin verður að vera með því við þrífumst ekki sem samfélag án hennar. Skapandi greinar eru vaxandi grunnþáttur í efnahags- og atvinnulífi sveitarfélagsins sem stuðlar að aukinni fjölbreytni starfa. Menning og saga sveitarfélagsins er einnig auðlind sem styður enn frekar við uppbyggingu og hagsæld svæðisins. Það skiptir einnig miklu máli að stutt sé við þá einstaklinga sem vilja stíga fram og gera eitthvað en hver og einn hefur svo mikið að segja í ekki fjölmennara samfélagi og að því ber að hlúa.“



Fjölbreytt verkefni fram undan

Dýrunn segir að menningarstefnan taki til allra hluta samfélagsins. „Unnið verður með menningartengdar áherslur í skipulagsmálum sveitarfélagins með hliðsjón af framkvæmdum á vegum þess, hönnun mannvirkja, staðsetningu útilistaverka, mótun miðbæjarkjarna og framtíðarþróun innviða með tilliti til þarfa í ferðaþjónustu en við viljum að menningin skíni alls staðar í gegn, að menningin sé einnig að taka þátt í uppbyggingu, alls staðar sjáanleg.

Unnið verður samkvæmt tveggja ára aðgerðaáætlun og almennum aðgerðum á borð við skipulagningu og fjármögnun menningartengdra viðburða, með því að styðja við áhugafélög í menningargrasrót Fjarðabyggðar, með því að stuðla að samstarfi menningarmiðstöðva landshlutans og með því að virkja stofnanir og svið sveitarfélagsins vegna framkvæmdar menningarstefnunnar, allt eftir því sem við á.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.