Listaverk og gróðurhús brotnuðu á Djúpavogi

Björgunarsveitin Bára á Djúpavogi var kölluð út í morgun til að hefta fok í bænum. Veðrið er heldur tekið að ganga niður þar.

„Það voru þakskífur að losna hér en ekkert alvarlegt,“ segir Ingi Ragnarsson, formaður Báru.

Sveitin þurfti einnig að huga að glergróðurhúsi sem losnaði upp og brotnaði sem og listaverki við gömlu bræðsluna, en efri hlutinn brotnaði af því.

Þegar Austurfrétt ræddi við Inga rétt fyrir klukkan níu í morgun sagði hann að veðrið væri heldur tekið að róast á Djúpavogi.

Sveitin var einnig kölluð út á sjötta tímanum í morgun vegna ferðafólks sem var á leiðinni milli Djúpavogs og Hafnar og hafði lent í slæmu foki. Útkall Djúpavogsbúa var afturkallað þar sem fólkið var komið suður fyrir Hvalnesskriður og betur fór á að björgunarsveitarfólk frá Höfn sinnti kallinu. Leiðin um skriðurnar er lokuð vegna veðursins.

Björgunarsveitir annars staðar á Austurlandi hafa ekki enn verið kallaðar út, eftir því sem Austurfrétt kemst næst. Snarpasta vindhviða dagsins til þessa mældist á Gagnheiði, 45,8 metrar. Víða annars staðar hafa mælst hviður upp á tæpa 40 metra svo sem í Papey og Vatnsskarði.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á að ekki sé hægt að tala um að veðrið gangi niður að gagni fyrr en seinni partinn eða í kvöld. Vindurinn muni snúast meira til vesturs á næstu tímum og verði þá hvasst á öðrum stöðum en til þessa. Enn muni bæta í norðan- og norðaustanlands.

Mynd: Ingi Ragnarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.