Lítið austur úr aukaúthlutun Framkvæmdasjóðs
Aðeins eitt austfirskt verkefni er meðal þeirra fimmtán sem fengu í morgun úthlutað í sérstakri viðbótarúthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.Í ljósi covid-19 faraldursins var ákveðið að úthluta 200 milljónum aukalega til fimmtán verkefna, sem sótt höfðu um í ár en ekki fengið náð fyrir augum úthlutunarnefndar í síðasta mánuði.
Austfirðingar fengu þá duglega úr sjóðnum, en Stuðlagil á Jökuldal var sá staður sem fékk næst hæstu einstöku upphæðina á landsvísu.
Nú er staðan önnur en aðeins 1,2 milljónir koma austur að þessu sinni. Þær fara til Hjarðarhaga ehf. sem hyggst bæta aðgengi fyrir ferðafólk að torfhúsum við bæinn Hjarðarhaga á Jökuldal.
Stærstu einstöku úthlutanirnar að þessu sinni er verkefni á Norðausturhorninu. Heimskautagerðið við Raufarhöfn fær 35 milljónir og gerð áningarstaðar við Hafnartanga á Bakkafirði 30 milljónir.
Frá hleðslunámskeiði við Hjarðarhaga. Mynd úr safni.