Loðnubrestur þýðir 260 milljóna tekjutap fyrir sjóði Fjarðabyggðar

Áætlað er að sveitasjóður og hafnarsjóður Fjarðabyggðar verði samanlagt af 260 milljónum króna ef engin loðna veiðist. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um breytingar hjá sveitarfélaginu í ljósi tekjutapsins.

Áhrifin af loðnubresti eru metin í minnisblaði fjármálastjóra sem lagt var fram á fundi bæjarráðs í gær. Þar kemur fram að í fyrra hafi verið tekið á mói 47% af loðnuaflanum í Fjarðabyggð og að meðaltali 40% síðustu fimm ár.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða frá Fjarðabyggð í fyrra er talið hafa verið um 10 milljarðar króna. Að þær vanti inn í samfélagið þýðir að laun starfsmanna í sjávarútvegi lækki um 13% og tekjur íbúa sveitarfélagsins að meðaltali um 5% eða alls 1,25 milljarða króna. Velta fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn er talin lækka um 600 milljónir króna.

Þá muni afleiðingar loðnubrestsins smitast til flesta íbúa sveitarfélagsins á einn eða annan hátt, meðal annars að fyrirtæki haldi að sér höndum í innkaupum. Þegar hafi 15 manns verði sagt upp störfum vegna hans, ekki ráðið í tímabundin störf og líklegt að langtímaáhrif leiði til enn frekari fækkunar.

160 milljónir vantar í aðalsjóð

Áætlað er að tekjur sveitarfélagsins lækki um 260 milljónir, þar af verði aðalsjóður af 160 milljónum og hafnarsjóður af 100. Fjárhagsáætlun gerði hins vegar ráð fyrir óbreyttri stöðu í veiðum og vinnslu sjávarfangs frá síðasta ári.

„Þetta mun sannarlega hafa áhrif á okkur,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

„Það hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um niðurskurð eða frestanir. Við vorum varfærin í áætlunum og metum stöðuna áfram. Það er ekki búið að slá loðnuvertíðina endanlega af,“ segir hann.

Tvö skip eru nú við loðnuleið. Polar Amaroq, skip dótturfélags Síldarvinnslunnar, fór frá Reykjavík seinni part sunnudags og Ásgrímur Halldórsson frá Höfn í gær. Bæði skipin eru úti fyrir Suðurlandi.

Annað áfall ef ekki semst við Færeyinga

Skip austfirsku útgerðanna eru annars flest á kolmunnaveiðum suðvestur af Írlandi meðan leitað er að loðnunni. Þangað er löng sigling og óvíst að takist að veiða allan kolmunnakvóta Íslendinga. Hann hefur undanfarin ár að miklu leyti, 80-90%, verið veiddur í færeyskri lögsögu en ósamið er um veiðar þar.

Áhrif af kolmunnaveiðum eru einnig metin í minnisblaði fjármálastjórans því um og yfir helmingur aflans hefur verið landað í Fjarðabyggð. Verðmæti aflans þar í fyrra er áætlað 4,5 milljarðar króna.

„Gríðarlega mikilvægt er að þessir samningar náist og að íslenskum kolmunaveiðiskipum verði tryggð veiðiréttindi á kolmuna í færeyskri lögsögu,“ segir í minnisblaðinu. „Ef það gerist ekki mun það valda enn öðru áfalli í afkomu íbúa og fyrirtækja í Fjarðabyggð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.