Loðnuleit lokið án jákvæðrar niðurstöðu

Ekki eru forsendur til að gefa út loðnukvóta eftir síðasta loðnuleitarleiðangurinn sem lauk um helgina. Framhaldið verður metið á morgun.

„Þessari viðamiklu leit er lokið án jákvæðrar niðurstöðu,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun.

Íslensku skipin sem tóku þátt í fjórðu umferð loðnuleitarinnar á þessu ári komu til hafnar í gærkvöldi. Þeirra á meðal var Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar.

Í samtali við Austurfrétt sagði Þorsteinn að niðurstöðurnar væru aðeins í samræmi við það sem áður hefði komið fram. Ekki er því hægt að gefa út loðnuveiðikvóta miðað við ástandið.

„Við höfum gert allt sem í mannlegu valdi er og miðað við þá þekkingu sem er til staðar til að skoða þetta,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að möguleikar á frekari leit verði ræddir á samráðsfundi á morgun. Helst sé hægt að horfa eftir vesturgöngu loðnunnar. Slík leit yrði hins vegar án þátttöku rannsóknaskipa stofnunarinnar sem eru á leið í togararall.

Samkvæmt tölum frá Landsbanka Íslands hefur útflutningsverðmæti loðnu numið um 18 milljörðum króna síðustu þrjú ár, eða 0,6% af landsframleiðslu.

Í gögnum Hagstofunnar kemur fram að aflaverðmæti loðnu árið 2017 hafi verið 3,6 milljarðar af landsvísu, þar af 1,8 í fimm austfirskum höfnum.

Loðna hefur verið veidd samfleytt á Íslandi frá árinu 1963. Dæmi eru um litlar vertíðir, svo sem 2009, en ekki að loðnan hafi alveg horfið. Ljóst er að ef loðnuvertíðin bregst hefur það gríðarleg áhrif á afkomu Austfirðinga.

Japanskir loðnukaupendur hafa síðustu daga beðið milli vonar og ótta af tíðindum af leitinni í Neskaupstað. Á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir einum þeirra að íslenska loðnan njóti mikilla vinsælda í Japan en hætta sé á að neytendur snúi sér annað hverfi hún alveg af markaðinum. Kaupendurnir hafa þó áhuga á að kaupa aðrar tegundir af Íslendingum, svo sem makríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.