Löglegt en siðlaust að nýta ákvæði í skattalöggjöf til að lágmarka skattgreiðslur í hverju landi

Sérfræðingur í skattamálum hjá KPMG segir að nýtt viðhorf til skattasiðferðis fyrirtækja muni breyta til frekari breytingar á löggjöf á næstu árum. Neytendur og fjölmiðlar muni veita stjórnmálamönnum og fyrirtækjum aðhald.


„Það er hávær krafa um allan heim um að fyrirtæki greiði skatta eins og samfélaginu þykir eðlilegt. Þið þekkið þetta hér af umræðunni um álverið,“ sagði Guðrún Björg Bragadóttir, sérfræðingur á skatta- og lögfræðisviði KPMG á fyrirlestri á Egilsstöðum nýverið.

Kenningar bandaríska hagfræðingsins Milton Friedman um að eina skylda fyrirtækja sé að skila eigendum sínum arði séu að úreldast. Í staðinn komi kröfur um samfélagslega ábyrgð. Þær hafi hafist á umhverfis- og jafnréttismálum en nú bætist skatta- og spillingarmál við.

Nýtt viðhorf sé afleiðing umræðu eftir bankahrunið haustið 2008. Nýr efnahagslegur veruleiki blasti þá við og ríkisstjórnir fóru að leita í djúpa vasa til að stoppa upp í götin í ríkisfjármálunum.

Eftirköst hrunsins

Þegar fjármál gríska ríkisins komust í brennidepil komu í ljós umfangsmikil skattaundanskot. Sú umræða hafi breiðst víðar um Evrópu og Bandaríkin og „varpað ljós á ýmislegt sem ekki hafið farið hátt.“

Upp risu hreyfingar eins og Occupy og á Íslandi eru áhrif Panamaskjalanna vel þekkt. Rætt hefur verið um skattskil fyrirtækja og skattaundanskot ýmissa þekktra einstaklinga.

Í Bretlandi hafi menn áttað sig á að alþjóðleg stórfyrirtæki greiddu lítinn sem engan skatt. Sérsamningar hollenskra og lúxemborgskra stjórnvalda við stórfyrirtæki voru dæmdir ólögmætir ríkisstyrkir. Tvísköttunarsamningar eru gagnrýndir og Evrópusambandið hefur sótt að bandaríska tæknirisanum Apple.

Guðrún sagði þessa viðhorfsbreytingu jafngilda því fyrir fyrirtækin að reglunum væri breytt í hálfleik í íþróttakappleik. „Það er viðurkennt að það er löglegt en siðlaust að nýta sér ákvæði í skattalöggjöf ti að lágmarka skattgreiðslur í hverju landi.

Fyrirtækin fara að þeim lögum sem gilda en skipuleggja sig til að nýta þær holur sem til staðar eru þegar fjármagn er fært á milli landa. Þetta eru ekki skattaundanskot eða svik heldur alþjóðlegar aðferðir til að tryggja að þau verði fyrir lágmarksskattgreiðslum.“

Annað landslag í skattamálum

Guðrún sagði umræðuna hafa skaðleg áhrif á fyrirtækin. Áhugi fjölmiðla og almennings sé mikill, umræðan á samfélagsmiðlum mikil og flókið að eiga í umræðum um flókin skattamál. Stundum hafi fyrirtækin ekki verið nógu dugleg að segja frá því sem þau leggi til samfélagsins. Málið er ekki einfalt viðfangs. Stórfyrirtæki koma upp útibúum víða um heim og sala á vörum og þjónustu er utan landamæra kaupanda.

Breytingar eru því í farvatninu. Evrópusambandið vinnur að löggjöf um breytta upplýsingagjöf milli landa þannig að skattayfirvöld fái heildaryfirlit skattstofna. Hún byggir á skýrslu OECD um aðgerðir lágmörkun skattgreiðslna fyrirtækja.

Guðrún spáði öðru landslagi í skattamálum eftir tíu ár. Hérlendis hefur umræðan fyrst og fremst snúist um Fjarðaál á Reyðarfirði sem aldrei hefur borgað svokallaðan fyrirtækjaskatt hérlendis. Það er vegna þess að fyrirtækið er að endurgreiða lán til móðurfélagsins Alcoa sem varð til þegar fyrirtækið var stofnað hérlendis.

Guðrún spáði því að nýjar reglur yrðu settar til að koma í veg fyrir stórt eigendalán og Fjarðaál er með. Þá megi vænta nýrra reglna um hvernig alþjóðafyrirtæki flytja verðmæti milli eininga.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.