Loks líf í nýju fjölbýlishúsi í Selbrún í Fellabæ

Rúmu einu og hálfu ári eftir að til stóð að afhenda tíu íbúðir í nýju fjölbýlishúsi í Fellabæ er loks nú fyrst að færast líf í húsið en dágóður biðlisti hefur verið eftir að komast þar að enda íbúðirnar sérstaklega ætlaðar tekjulágum einstaklingum.

Þar með fer töluverðri sorgarsögu þeirrar byggingar að ljúka en þar var í maí 2022 sem hornsteinn nýrrar götu í Fellabæ var lagður en þar hugðist fyrirtækið Hrafnshóll byggja allt að 40 íbúðir og nýta til þess öll þau úrræði sem í boði voru af hálfu ríkisins til að örva húsnæðismarkað á landsbyggðinni.

Tíu íbúða fjölbýlishúsið sem nú er að fyllast af fólki var fyrsta skrefið í því ferli Hrafnshóls og þar stóð til að afhenda allar íbúðirnar fullkláraðar í júní eða júlí 2023. Beið svo og leið án þess að framvinda yrði á verkinu og í vor ákvað húsnæðissjálfseignarstofnunin Brák hses. að rifta öllum samningum við Hrafnshól. Voru aðrir verktakar ráðnir í staðinn sem luku því sem ljúka þurfti í nóvembermánuði.

Nýir eigendur hafa þegar komið sér fyrir í tæpum helmingi þeirra tíu íbúða sem í húsinu eru samkvæmt upplýsingum Austurfréttar og einungis vikur áður en allar íbúðirnar verða komnar í notkun. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar