Magnús Þór ráðinn til Faxaflóahafna
Magnús Þór Ásmundsson, fyrrum forstjóri Alcoa Fjarðaáls, hefur verið ráðinn hafnarstjóri Faxaflóahafna. Hann tekur við starfinu í byrjun ágúst.Magnús Þór lét af störfum sem forstjóri Fjarðaáls í byrjun ágúst í fyrra en hann hafði verið forstjóri þess frá árinu 2014. Áður var hann forstjóri Alcoa á Íslandi og þar áður framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar hjá Fjarðaáli þar sem hann kom til starfa árið 2009.
Hann er rafmagnsfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk meistaragráðu frá DTU í Danmörku árið 1990. Að námi loknu starfaði hann hjá Marel uns hann réðist austur.
Í tilkynningu Faxaflóahafna segir að Magnús Þór hafi sem forstjóri Fjarðaáls verið ábyrgur fyrir allri starfsemi félagsins á Íslandi, þar með talið innleiðingu á öryggisstefnu, og samvinnu við opinbera aðila. Þar átti hann meðal annars samstarf við sveitarstjórn Fjarðabyggðar varðandi hafnamál og umhverfismál. Hann hafi á ferli sínum öðlast mikla reynslu af stjórnun og rekstri þar með talið breytingastjórnun stjórnun viðamikilla verkefna og áætlanagerð.
Magnús Þór tekur við nýju starfi þann 5. ágúst næstkomandi.