Makrílvinnsla hafin hjá Loðnuvinnslunni

Makrílvinnsla hófst hjá Loðnuvinnslunni í byrjun vikunnar eftir að Hoffell kom með sinn fyrsta farm á þessari vertíð. Skipið fór heldur seinna af stað en ætlað var vegna tafa í slipp í sumar.

Hoffellið kom úr sinni fyrstu ferð í byrjun vikunnar með um 450 tonn. Aflinn fékkst innan íslensku lögsögunnar. Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir fiskinn hafa verið stóran og góðan, eins og almennt hafi fengist innan íslensku lögsögunnar í júlí.

Hoffellið fór strax aftur til veiða og er í Smugunni, eins og flest íslensku skipin, en þangað færðu þau sig um síðustu helgi. Skipið kom á miðin í gær eftir um sólarhringssiglingu frá Fáskrúðsfirði.

„Flotinn hafði leitað og var kominn þangað. Það útilokar ekki að það sé enn fiskur í íslensku lögsögunni. Ég hef ekki enn fengið fréttir af hvernig fiskurinn er þar en við reiknum með að hann sé smærri,“ segir Garðar.

Miðað við gögn Fiskistofu hafa yfir 40.000 tonn veiðst í íslensku lögsögunni í sumar en kvótinn er alls 127 þúsund tonn. Lögð hefur verið áhersla á að veiða innan lögsögunnar til að sýna fram á veiðireynslu þar sem makríllinn er deilistofn sem ósamið er um milli ríkjanna við Norður-Atlantshaf.

Garðar segir ekki útilokað að enn fáist meira innan íslensku lögsögunnar. „Það hefur skipt miklu að veiða innan hennar. Það hefur líka sýnt sig að veiðin þar þarf ekki að vera búin þótt farið sé yfir í Smuguna. Það eru góðar líkur á að makríll finnist aftur í íslensku lögsögunni þegar líður á.“

Með fyrstu löndun Hoffellsins er makrílvinnsla farin af stað hjá Loðnuvinnslunni. Garðar segir hana fara vel af stað en síðar en vonast var eftir. Skipið var heldur lengur í slipp á Akureyri en ráð var fyrir gert. „Það fór þangað snemma í júní en síðan urðu tafir. Það er gott að vera komin af stað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar