Mannabein fundust á Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. apr 2021 17:03 • Uppfært 01. apr 2021 17:04
Staðfest hefur verið að bein, sem fundust í fjöru við Vopnafjörð í morgun, eru af manni. Þess verður freistað að bera kennsl á viðkomandi.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að um klukkan hálf ellefu í morgun hafi verið haft samband við lögregluna og látið vita af beinum í fjöru við Vopnafjörð og var talið að um mannabein hafi verið að ræða.
Nú hefur verið staðfest að um líkamsleifar manneskju er að ræða og er talið að þær hafi legið í sjó í nokkurn tíma. Lögregla hefur rannsakað vettvang i dag en ekki er grunur um að líkfundurinn tengist saknæmi atviki.
Líkamsleifarnar verða sendar til frekari rannsóknar hjá kennslanefnd ríkislögreglustjóra sem reynir að staðfesta kennsl þeirra.