Mannhæðarháir hnullungar á veginum um Vattarnesskriður - Myndir
Risastórir grjóthnullungar virðast hafa fallið á veginn um Vattarnesskriður um helgina. Vegfarandi segir þá stærstu allt að mannhæðarhá.„Það er erfitt að áætla rúmmálið á þeim en þeir eru sumir mannhæðarháir“ segir Páll Leifsson frá Eskifirði sem leið átti um skriðurnar í gær.
Páll var að horfa eftir fuglalífinu og ætlaði að aka milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um skriðurnar en varð frá að hverfa.
Hann segir grjótið vera á um 500 metra kafla. Sumt grjótið staðnæmdist á veginum, annað í öðrum hvorum vegarkantinum og enn annað hafði farið yfir veginn og endað niður í sjó. Einn stóru steinanna hafði klofnað í tvennt þegar hann lenti í neðri vegkantinum.
Páll segist nokkuð viss um að steinarnir hafi fallið á veginn um helgina en víða féllu litlar skriður í leysingum og rigningum.
Þær upplýsingar fengust hjá Vegagerðinni í dag að ekki væri vetrarþjónusta á veginum og hann því merktur ófær. Ekki væri á vegum Vegagerðarinnar búið að skoða aðstæður á svæðinu.
Myndir: Páll Leifsson