Mátti ekki miklu muna að glóðin í rörinu færi lengra

Slökkviliðið á Egilsstöðum þurfti að hafa snör handtök þegar það var kallað út að íbúðarhúsi við Brávelli. Þar var kamínurör stíflað þannig að reykurinn komst ekki út. Við slíkar aðstæður hitna rörin mikið sem leitt getur til íkveikju.

„Fólkið var að kynda upp í kamínunni en rörið var stíflað þannig að reykurinn kemst ekki frá. Þá hitnar rörið og reykurinn fer inn,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri.

„Útkallið barst klukkan 14:07 og við vorum komnir á staðinn og byrjaðir að vinna sjö mínútum síðar. Þetta gekk vel en það var erfitt að komast að glóðinni inni í rörinu.

Við söguðum ofan af rörinu og náðum að moka drullunni upp úr því auk þess að hreinsa úr kamínunni inni í stofu. Eftir að við losuðum um stífluna kólnaði rörið eiginlega strax.“

Haraldur segir hurð hafa skollið nærri hælum því aðeins hafi orðið tjón af völdum sóts og reyks, sem trúlega sé hægt að þrífa, auk þess sem tjón sé á rörinu sjálfu. „Það eru engar skemmdir og innanstokksmunum og við náðum að koma í veg fyrir að glóð færi út á gólf.“

Þekkt er þó að rör hitni svo mikið að eldur myndist út frá þeim, oftast þannig að glóð hleypur í klæðningar í kringum þau. „Það er alltaf hætta á því. Við náðum að grípa inn í þannig að rörið hitnaði ekki það mikið en það mátti ekki miklu muna. Rörið var sjóðheitt, bæði ofan og neðan við þakið en slapp til þar sem það fór í gegn.“

Haraldur Geir segir atvikið áminningu til húseigenda um að huga vel að kamínurörum áður en þeir fari að kveikja upp. „Það þarf að hugsa vel um þessir rör ef það á að nota kamínurnar. Það þarf að passa að þau séu ekki fullt af skít og drullu áður en kveikt er upp.

Eins þarf að huga vel að því hvað brennt er í kamínunum. Sumt af því sem sett er í þær getur hlaðist innan í rörin. Best er að brenna hreint timbur eða sérstaka arinkubba sem hægt er að kaupa en ekki pappa eða spónaplötur sem setjast frekar innan í rörin.“

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.