Mátti ekki birta myndir í neikvæðu samhengi

Persónuvernd telur AFL Starfsgreinafélag hafa brotið lög með að birta myndir sem teknar voru þegar lögregla var kvödd til vegna meintra brota fyrirtækisins Móður jarðar sumarið 2016. Persónuvernd telur að verkalýðsfélagið ekki hafa sýnt sanngirni í meðferð persónuupplýsinga sem aflað hafi verið í eftirlitsferð.

Forsaga málsins er sú að í júní 2016 fór framkvæmdastjóri AFLs ásamt fulltrúum Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í eftirlitsferð til lífræna framleiðandans Móður jarðar að Vallanesi á Fljótsdalshéraði.

Í lok þeirrar heimsóknar var lögregla kölluð vegna gruns um að væri að ræða brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga þar sem sjálfboðaliðar voru nýttir til vinnu. Fólk á vegum alþjóðlegra samtaka um lífræna ræktun hafi dvalið í Vallanesi í 1-2 vikur gegn því að fá mat og húsaskjól. Engar peningagreiðslur hafi farið frá Móður jörð til sjálfboðaliðanna.

Framkvæmdastjóri AFLs kvaðst þá hafa verið farinn heim úr eftirlitsferðinni en fengið símtal frá fulltrúa Vinnumálastofnunar um að snúa við og tekið myndirnar þá. Þær voru síðan nýttar í umfjöllun á heimasíðu AFLs og fréttabréfi verkalýðsfélagsins sem dreift var með Austurglugganum viku síðar. Umfjöllun sem byggði á efni frá AFLi birtist einnig á Austurfrétt, Fréttablaðinu og RÚV.

Ekki mátt nýta upplýsingar úr eftirlitsferð

Móðir jörð kærði myndbirtinguna til Persónuverndar á þeim forsendum að ekki hefði verið fengin heimild til myndbirtingarinnar, umfjöllunin hefði verið ómálefnaleg og úr hófi fram fyrir einstaklinga sem staddir hafi verið á staðnum í góðri trú. Þá starfi engir félagsmenn AFLs hjá Móður jörð og stéttarfélagið því ekki verið að gæta hagsmuna félagsmanna sinna.

Í síðari svörum Móður jarðar til Persónuverndar er bent á að framkvæmdastjóri AFLs hafi verið á staðnum sem eftirlitsaðili. Samkvæmt lögum um vinnustaðaskírteini megi ekki veita öðrum upplýsingar sem aflað sé í slíkum ferðum.

Þá er því haldið fram að umfjöllun um fyrirtækið hafi í raun falið í sér umfjöllun um forsvarsmenn þess. Með að sýna lögreglu á staðnum sé gefið í skyn um að Móðir jörð hafi framið lögbrot. Slíkt geti haft verulega neikvæð áhrif á lítið og viðkvæmt fyrirtæki sem byggi afkomu sína á jákvæðu orðspori.

Hagsmunir skúrkanna að ekki sé sagt frá

Í svörum AFLs kemur fram að það telji Persónuvernd ekki hafa heimild til að úrskurða í málinu og fór fram á frávísun. Efnisleg úrlausn þess sé dómstóla og snúist um að úrskurða um mörk friðhelgi einkalífs og stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis.

Vísað sé til félags í atvinnurekstri en ekki ekki einstaklinga. Ekki hefðu verið birtar myndir af þeim eða vísað til á annan hátt. Þá komi Móðir jörð ekki fram fyrir hönd einstaklinganna sem sumir hverjir hafi stillt sér brosandi upp fyrir myndatöku.

Þessu til viðbótar sendi Starfsgreinasambandið, sem AFL á aðild að, bréf til Persónuverndar þar sem því er haldið fram að eðlilegt sé að segja frá þegar lögregla sé kvödd til. Umfjöllunin sé ekki ómálefnaleg, Móðir jörð hafi ekki bent á neitt sem ekki standist. Þvert á móti séu það almannahagsmunir að samkeppnisaðilar og viðskiptavinir viti að fyrirtækið byggi tilverurétt sinn á sjálfboðaliðum. Þá séu það „hagsmunir skúrkanna“ að ekki sé sagt frá atvikum sem þessum.

Notkun myndanna ekki í samræmi við væntingar einstaklinganna

Persónuvernd benti á að þrátt fyrir aðildarskort Móður jarðar væri stofnuninni heimilt að hefja sjálfstæða athugun og tók málið til meðferðar á þeim forsendum.

Í áliti stofnunnar er tekið fram að máli skipti hvernig persónuupplýsinga sé aflað, hvort það hafi verið á grundvelli stjórnsýsluheimilda eða annarra sambærilegra. Ljósmyndir sem greina megi einstaklinga á séu persónuupplýsingar.

Tekið er fram að undanþágur megi gera í þágu fjölmiðlunar en stofnunin telur birtingu myndanna, sem aflað hafi verið í tengslum við ferð eftirlitsaðila, ekki falla undir almannahagsmuni.

Þá gerir Persónuvernd athugasemd að myndirnar hafi verið birtar í samhengi við neikvæð ummæli. Gildishlaðin ummæli hafi ekki verið í samræmi við þær væntingar sem einstaklingarnir megi hafa haft um öflun upplýsinga um þá á grundvelli eftirlitsheimilda. Birtingin hafi því ekki verið í samræmi við kröfu um sanngirni við vinnslu persónuupplýsinga.

Málið fyrir dómstólum

Persónuvernd hafnar því hins vegar að umfjöllun AFLs um Móður jörð hafi jafngilt því að fjallað væri um forsvarsmenn fyrirtækisins.

Tæpu ári eftir eftirlitsferðina var gefin út opinber ákæra á hendur Móður jörð og forsvarsmanni fyrir brot á útlendingalögum og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Málið er um þessar mundir fyrir Héraðsdómi Austurlands.

Rétt er að halda því til haga að framkvæmdastjóri AFLs, Sverrir Mar Albertsson, er jafnframt stjórnarformaður Útgáfufélags Austurlands sem gefur út Austurgluggann og rekur Austurfrétt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.