![](/images/stories/news/2025/stodvarfjordur_hreinsun_20250207/stodvarfjordur_tiltekt_20250207_0081_web.jpg)
Meira umfang tjóns á Stöðvarfirði að koma í ljós
Starfsmenn áhaldahúss Stöðvarfjarðar með góðri hjálp annarra starfsmanna Fjarðabyggðar hafa síðustu fjóra sólarhringa unnið linnulítið að hreinsun þorpsins eftir óveðrið í síðustu viku og nú sér nokkuð fyrir endann á því verkefni að sögn verkstjóra. Umfang tjóns er þó líkast til meira en fyrst var haldið.
Sumir þorpsbúar líktu bænum við stríðssvæði eftir að mikill stormur olli þar miklu tjóni þann 6. febrúar síðastliðinn. Þar fauk nánast allt sem fokið gat. Þök fóru af mörgum húsum, fjöldi trjáa brotnuðu og tvístruðust um allt og mestallt lauslegt annað fauk um allan fjörðinn. Búið er að fjarlægja fleiri gáma af járnarusli og flytja brotin tré á brott að mestu.
Allt þetta smærra eftir enn
Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri áhaldahúss þorpsins, segir hreinsun ganga allvel. Búið sé að fjarlægja allt þetta stóra eins og járnplötur, rör og tunnur og á þessu stigi sé það helst mikið smærra rusl sem eigi eftir að hirða. Slíkt rusl sé bókstaflega í öllum firðinum.
„Það er nú sennilega hvað mesta verkið sem eftir er að týna upp allt þetta smærra sem liggur hér um allt en það er mikið og mun taka góðan tíma að ná því öllu. Það sem helst að koma í ljós að umfang tjónsins er líkast til meira en menn hugðu strax í kjölfarið. Þar helst um að ræða bíla sem hafa tjónast en vegna sjávarseltu sem gekk hér yfir allt þá sjást þær skemmdir ekki endilega fyrr en búið er að hreinsa bílana. Það er nokkur fjöldi þeirra með beyglur og rispur eftir þessi ósköp í síðustu viku. Sjálfur sá ég ekkert að mínum eigin bíl fyrr en ég þreif hann og þá komu í ljós skemmdir. Sá er reyndar í kaskó en það er sjálfsábyrgð sem fellur á mig því það algerlega vonlaust að gera sér grein fyrir hvernig eða hvaðan skemmdirnar komu. En líklega er staðan öllu verri hjá þeim sem ekki hafa einhverjar viðbótartryggingar.“
Matsmenn tryggingarfélaganna hafa einmitt verið að heimsækja þorpsbúa og aðstoða við mat á tjóni hjá hverjum og einum en þeir sem til þekkja hafa giskað á að í heild hlaupi tjónið á tugmilljónum króna. Nákvæm tala mun þó ekki liggja fyrir fyrr en með vorinu þegar allt hefur verið gert upp.
Mynd tekin daginn eftir að ósköpin gengu yfir sem sýnir vel hve mikið hreinsunarstarf var fyrir höndum. Allt er þó á réttri leið. Mynd GG