Meiri flutningsgeta með nýjum jarðstrengjum

Nýverið lauk vinnu við styrkingu á jarðstrengjum í þremur austfirskum raflínum. Markmiðið var að auka orkuflutningsgetu þannig að strengirnir takmarki ekki lengur flutningsgetu loftlínanna sem þeir tengjast.

„Nýju jarðstrengirnir koma í staðinn fyrir eldri strengi sem voru of afkastalitlir og sköpuðu því flöskuháls í kerfinu á nokkrum stöðum. Þessi framkvæmd við endurnýjun jarðstrengjanna skiptir miklu máli fyrir raforkuöryggi á svæðinu“ segir Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs Landsnets.

Strengirnir eru í Eskifjarðarlínu 1, milli Eskifjarðar og Eyvindarár við Egilsstaði, Stuðlalínu 2, milli Stuðla í Reyðarfirði og Eskifjarðar og Neskaupstaðarlínu 1, milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar. Þeir liggja á milli loftlínu og tengivirkis í Eskifirði og Norðfirði.

Markmið verkefnisins var að auka orkuflutningsgetuna þannig að jarðstrengirnir við tengivirkið á Eskifirði og Norðfirði verði ekki takmarkandi heldur í samræmi við flutningsgetu loftlínanna sem þeir tengjast. Nýju jarðstrengirnir eru gerðir fyrir 132 kV spennu þó þeir séu nú reknir á 66 kV spennu. Með þessu er búið að undirbúa mögulega spennuhækkun á Eskifjarðarlínu 1 og Stuðlalínu 2.

3,5 km af jarðstrengjum

Undirbúningur á verkefninu hófst 2015 og var byrjað að skipta út jarðstrengjum við tengivirkið á Eskifirði 2016. Verkinu lauk í byrjun mánaðarins þegar Neskaupstaðarlína 1 var tekin í rekstur, eftir lagningu strengja í Neskaupstað.

Lokafrágangur á flugvellinum í Norðfirði dróst vegna veðurs en fyrstu vikuna í desember náðist að ljúka öllum frágangi í og við flugvöllinn enda veðurskilyrði óvenju góð miðað við árstíma.

Úttekt á yfirborðsfrágangi á strengleiðum fer fram næsta vor og þá verður unnið að úrbótum ef þörf þykir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.