Meirihlutaviðræður hefjast seinnipartinn í dag

Gauti Jóhannesson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi segir að meirihlutaviðræður muni hefjast seinnipartinn í dag. Hann vildi hinsvegar ekki gefa upp að svo stöddu við hvaða flokk verður rætt fyrst.

Eins og fram hefur komið í fréttum eru tveir augljósir kostir í boði fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvað meirihlutann varðar í Múlaþingi, Austurlistinn eða Framsókn, svo framarlega sem stefnt er að tveggja flokka stjórn í sveitarfélaginu.

Gauti er annars að jafna sig eftir bílslys sem hann lenti í á sunnudag á veginum um Öxi. Hann segir að hann hafi sloppið ótrúlega vel miðað við aðstæður.

„Þetta gerðist við einbreiðu brúnna við ánna Hemru en þar skall ég á annan bíl,“ segir Gauti. „Þetta var það harður árekstur að hjólastellið að framan brotnaði undan og annað framdekkið á mínum bíl lenti fyrir aftan bílinn.“

Gauti segir að miðað við hve harður áreksturinn var sé magnað að hann hafi sloppið með skrámur og engin alvarleg meiðsl hafi orðið í árekstrinum.

Aðspurður hvort þetta sýni ekki nauðsyn þess að fækka einbreiðum brúm í fjórðungnum segir Gauti svo vera.

„Það er hneyksli hve margar einbreiðar brýr eru á Austurlandi og löngu kominn tími til að gera slurk í að fækka þeim,“ segir hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.