Menning fyrir nytjamörkuðum á Austurlandi
Rík vitund fyrir endurnýtingu meðal íbúa á Austurlandi birtist meðal annars í jákvæðni gagnvart nytjamörkuðum á svæðinu. Aukinn stuðning þarf við aðgerðir fyrirtækja í úrgangsforvörnum.Þetta var meðal þess sem fram kom á fundi sem Umhverfisstofnun stóð fyrir í Valaskjálf á Egilsstöðum nýverið undir yfirskriftinni „Saman gegn sóun“. Það er verkefni sem stofnunin hefur staðið fyrir frá árinu 2016 í úrgangsforvörnum, það er að koma í veg fyrir að sorp verði til.
Í lok fundarins voru gestir beðnir um að forgangsraða ákveðnum aðferðum í úrgangsforvörnum eftir mikilvægi fyrir nýju stefnuna. Efstu atriðin voru: vitundarvakning og fræðsla, skattar og ívilnanir og ráðgjöf til fyrirtækja.
„Við fengum mjög fjölbreyttar niðurstöður, bæði tillögum að aðgerðum sem beinast að fyrirtækjum en líka um grunnhugmyndir úrgangsmála,“ segir Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sem leiddi fundinn ásamt Birgittu Steingrímsdóttur en þau eru sérfræðingar á sviði loftslags- og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.
„Fólk var einkum að forvitnast um umhverfi fyrirtækja, hvernig hægt sé að styðja þau með ívilnunum, til dæmis að sveitarfélögin geti styrkt í meira mæli fyrirtæki sem eru með hringrásarlausnir. Tilfinningin er að einstaklingar séu orðnir nokkuð meðvitaðir,“ bætir hún við.
Sparnaður fyrir sveitarfélögin
Miðað við það sem þau hafa kynnst eru ýmsar leiðir færar nú þegar á Austurlandi, sérstaklega fyrir einstaklinga, sem vilja draga úr sóun. Þar nefna þau sérstaklega að nytjamarkaðir virðast dafna ágætlega á svæðinu.
„Það er ákveðin menning og stemming hér fyrir viðskiptum með notaðan varning, sem er alls ekki sjálfsagt. Við vorum með erindi frá Fjarðarbásum þar sem fram kom að sama flíkin hefði farið þar fimm sinnum í gegnum þetta eina ár sem fyrirtækið hefur starfað. Að kaupa notað eða leigja er hluti af því að breyta viðhorfinu og ákveðið skref í að draga úr úrgangi,“ segir Birgitta.
„Nytjamarkaðirnir eru ekki bara hugmyndafræðilega hvetjandi fyrir fólk sem vill draga úr úrgangi heldur gagnlegir fyrir efnahaginn. Þeir draga úr kostnaði sveitarfélaga við að taka á móti úrgangi og halda verðmætum í landinu því minna þarf að kaupa utan að,“ bætir Jóhannes við.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.