Menntastefna Cittaslow samin á Djúpavogi

Fulltrúar frá Ítalíu, Íslandi og Belgíu komu nýverið saman á Djúpavogi til að semja menntastefnu hinna alþjóðlegu Cittaslow-samtaka sem Djúpavogshreppur er aðili að. Skólastjórinn segir að síðar meir muni menn líta á helgina á Djúpavogi sem stórviðburð.

„Cittaslow byggir á nokkrum undirflokkum, meðal annars menntun og hugmyndin að baki degi okkar hér er að búa til stefnuyfirlýsingu um hvað skólar þurfa að gera ef þeir vilja innleiða hugmyndafræði Cittaslow,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Djúpavogs.

Per Giorgio, framkvæmdastjóri samtakanna, kom til landsins gagngert til að hjálpa til við stefnuyfirlýsinguna. Hún var unnin af kennurum frá Djúpavogi, samstarfsskóla þeirra í Orviedo á Ítalíu og belgískum skóla.

Hugmyndafræðin passaði vel inn í skólastarfið

Djúpavogshreppur er eina sveitarfélagið á Íslandi sem er aðili að Cittaslow en markmið hreyfingarinnar er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni.

Sveitarfélagið hefur verið aðili að samtökunum frá 2013 en það var 2015 sem hugmyndafræðin var tekin upp í skólanum á Djúpavogi.

„Þegar við fórum að skoða málin komumst við að raun um að við værum þegar að gera margt sem smellpassaði við stefnuna. Við erum Grænfánaskóli og verum með grenndarnám, sem sumir kalla átthagafræði. Allt frá fyrsta bekk fær hver bekk eina kennslustund á viku þar sem unnið er með menningu staðarins, örnefni, atvinnu og sögu.“

Heimboð í gríni

Þetta leiddi meðal annars til samstarfs skólans á Djúpavogi og í Orviedo. Fyrir rúmu ári fóru sex kennarar frá Djúpavogi út í kynnisferð. Þar byrjaði boltinn að rúlla.

„Þar hittum við Per Giorgio sem var að hjálpa skólanum að vinna með hugmyndafræðina og hann varð hrifinn af því sem við vorum að gera. Hann vildi efla skólana því ef börnin alast upp við hugmyndafræðina þá gera þau hana að lífsstíl og hafa áhrif heima hjá sér.

Aðstoðarskólastjórinn okkar spurði hann í gríni hvort hann vildi ekki koma og vinna menntastefnuna hjá okkur. Hann sagði það væri of langt að fara og við grínuðumst með þetta það sem eftir var dvalarinnar. Þremur mánuðum seinna sendi hann póst, sagðist vilja koma og taka Belgana með sér.

Í raun er verið að horfa til þess sem við og ítalski skólinn í okkar samstarfi auk skólans í Belgíu höfum verið að gera og nota það sem módel fyrir aðra,“ segir Halldóra.

Skólaferðalag til Ítalíu

Samstarf Djúpavogsskóla og Orviedo heldur áfram því veittur var tveggja ára styrkur. Síðasta vor fóru nemendur í þremur elstu bekkjunum í skólaferðalag til Ítalíu.

„Við höfum áður farið í dæmigerð skólaferðalög til Kaupmannahafnar þar sem farið er í Tívólí og búðir. Krakkarnir voru ekki sannfærðir um hugmyndina fyrst, að það yrðu bara skoðaðir kastalar og ekkert farið í búðir.

Þeir smituðust hins vegar af gleði okkar þegar við komum til baka, sáu hvað við höfðum upplifað margt. Þau voru síðan ótrúlega glöð með ferðina. Þegar við komum aftur heim kom ein stelpan til mín áður en hún fór til foreldra sinna og faðmaði mig með þeim orðum að hún hefði ekki getað óskað sér betri útskriftarferðar. Mér fannst mjög vænt um það. Hluti hópsins er nú kominn í framhaldsskóla og nokkrir krakkar komu heim um helgina til að hitta á gestina.“

Halldóra er sannfærð um að afrakstur helgarinnar á Djúpavogi eigi eftir að reynast dýrmætur þegar fram í sækir. „Ég get ekki lýst því en aðstoðarskólastjórinn minn sagði að við ættum eftir að átta okkur á því hversu merkileg vinnan er þegar við lítum til baka eftir 20 ár. Ég trúi að þetta sé byrjunin á einhverju stórkostlegu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.