Merkasta ættfræðirit Austfirðinga komið á rafrænt form

Vefurinn Ættir Austfirðinga var formlega opnaður á fullveldishátíð Íslendinga þann 1. desember síðastliðinn. Það er Menntaskólinn á Egilsstöðum sem stendur að og heldur utan um vefinn.

Skúli Björn Gunnarsson er formaður skólanefndar Menntaskólans á Egilsstöðum. „Merkasta ættfræðirit Austfirðinga var samið af sr. Einari Jónssyni frá Hofi í Vopnafirði á árunum 1880 til 1930. Ritið kom hins vegar ekki út fyrr en að Einari látnum, í átta bindum frá 1953-1968 auk nafnaskrár. Austfirðingafélagið í Reykjavík var útgefandi.

Árið 1965 stofnaði Benedikt Gíslason frá Hofteigi, ásamt eftirlifandi börnum sr. Einars, Menningarsjóð prófasthjónanna á Hofi. Höfuðstóll menningarsjóðsins voru tekjur af sölu á Ættum Austfirðinga og var sjóðnum ætlað að styrkja bókasafn Eiðaskóla og að styrkja og stuðla að söfnun og útgáfu á hvers konar austfirskum ætta- og sagnafróðleik.

Þegar Alþýðuskólinn á Eiðum var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum tók ME við menningarsjóðnum og lager sem enn var til af bókunum settur í vörslu Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Fyrir allnokkrum árum var ákveðið að hefja vinnu við rafræna útgáfu af Ættum Austfirðinga og skanna öll níu bindin.

Þegar tekin var ákvörðun um að sameina Menningarsjóð prófasthjónanna á Hofi við Skólasjóð ME var jafnframt samþykkt að síðasta verkefni sjóðsins yrði að kosta gerð vefaðgengis að Ættum Austfirðinga. Var vefsmiðnum Eddu Jónsdóttur Langworth falið það verkefni og nú geta Austfirðingar með auðveldum hætti leitað forfeðra og formæðra sinna. Menntaskólinn á Egilsstöðum þakkar Eddu fyrir vel unnið verk og Héraðsskjalasafni Austfirðinga fyrir samstarfið við að koma verkefninu í höfn.

Ættir Austfirðinga eru eitt þeirra mörgu ættfræðirita sem liggja að baki Íslendingabók. Þessi vefur er ekki ættfræðivefur eins og Íslendingabók heldur útgefið rit sem fært hefur verið yfir í vefrit. Það gerir fólki kleift að fletta rafrænt í þeim upplýsingum sem öll átta bindin innihalda, en sum þeirra eru ófáanleg í dag og fáir sem eiga þau,“ segir Skúli.


Ertu af Skúlaætt eða Melaætt?
Skúli telur mikinn áhuga fyrir ættfræði í samfélaginu í dag? „Ég held að ættfræðiáhugi sé kannski ekki eins mikill og áður en samt virðist notkun á Íslendingabók benda til þess að jafnvel ungt fólk detti stundum niður í ættfræðigrúsk. Og vonandi kíkja sem flestir inn á vefinn og kanna hvort þeir eru til dæmis af Skúlaætt eða Melaætt.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.