Mesti hiti ársins á Dalatanga í gær

Tuttugu stiga hiti mældist á Dalatanga seint í gærkvöldi og tæplega það á Eskifirði. Þetta er í annað skipti sem slíkur hiti mælist á landinu í nóvembermánuði. Hlýtt var í veðri á Austfjörðum í kvöld og í nótt.


20,1 stiga hiti mældist á Dalatanga um klukkan níu í gærkvöldi. Trausti Jónsson, veðurfræðingur, greinir frá því á bloggsíðu sinni svo virðist sem þetta sé hæsti hiti ársins á veðurstöðinni og þetta sé í annað skipti sem hiti mælist yfir 20 gráðum á landinu í nóvember. Fyrra skiptið var á Dalatanga fyrir nánast sléttum þremur árum.

Hitinn á Dalatanga varði entist framundir miðnætti en þar var hlýtt miðað við árstíma í nótt. Þar var einnig hvasst en hviður mældust um 30 m/s í gærkvöldi.

Svipaða sögu er að segja frá öðrum austfirskum veðurstöðvum. Hitinn varð tæpar 20 gráður á Eskifirði, og á Kollaleiru, Seyðisfirði, Norðfirði, Ljósalandi í Fáskrúðsfirði og á Vattarnesi fór hitinn í 15 gráður í gær og hélst um eða yfir 10 gráður í alla nótt.

Trausti bendir í pistli sínum að hiti sem þessi sé sjaldgæfur í nóvember og desember en ekki óþekktur. Hlýindin séu í neðri hita veðrahvolfsins en fátítt er að þau nái alla leið niður á yfirborð jarðarinnar. „Enginn sólarylur til að hjálpa til og oftast er verið að eyða varma í snjóbræðslu. Dugar lítt nema töluverður vindur og fjöll til að búa til þá lóðréttu hreyfingu og blöndun sem til þarf.“

Hlýindin verða hins vegar skammvin. Von er á ísköldu lofti frá Grænlandi sem tekið gæti yfir um miðja næstu viku.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.