Metúrkoma víða á Austurlandi í maí
Úrkomumet voru slegin víða á Austurlandi í síðastliðnum maímánuði. Kuldamet var sett á Brúarjökli.
Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofunnar fyrir veðrið í maí. Þar segir að úrkomumet hafi verið slegin á nokkrum stöðum á svæðinu frá Vopnafirði suður í Neskaupstað. Í norðanáhlaupi 23. og 24. maí snjóaði víða á svæðinu.
Hiti var örlítið yfir meðaltali á Dalatanga og Teigarhorni en undir á Egilsstöðum. Hretið kom eftir hlýindaskeið í byrjun mánaðarins.
Lægstur meðalhiti í byggð í mánuðinum mældist 2,3°C í Möðrudal. Á mönnuðum stöðvum mældist hitinn hæstur á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 2. maí, 17,2°C.
Lægstur hiti mánaðarins mældist -13,8°C á Brúarjökli þann 25. maí. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur á landinu þennan ákveðna dag. Dægurmet var slegið þar daginn áður.
Mesta snjódýpt í mánuðinum mældist á 25 sentímetrar á Grímsstöðum á Fjöllum þann 24. maí. Þremur dögum fyrr var 21 sm snjór á Hánefsstöðum í Seyðisfirði.