Mikið ósætti á Stöðvarfirði með skerta þjónustu Landsbankans

Íbúar á Stöðvarfirði eru verulega ósáttir við að Landsbankinn ætli ekki að halda úti hraðbanka á staðnum, en hann hefur verið eina baknaþjónustan á staðnum síðan útibúi hans var lokað fyrir rúmum fimm árum.


Stjórn Íbúasamtaka Stöðvarfjarðar sendu bréf á Landsbankann um miðjan mánuð eftir að hraðbankinn á staðnum hafði verið bilaður í rúman mánuð. Í bréfinu var ástandinu harðlega mótmælt og þess krafist að nýr hraðbanki yrði settur upp fyrir þann gamla sem fyrst.

„Eftir lokun útibúsins á Stöðvarfirði og síðar Fáskrúðsfirði, hefur hraðbankinn verið íbúum mikilvægur enda langt í okkar útibú. Við teljum hraðbanka vera lágmarksþjónustu sem þó er nauðsynlegt að hafa í hverju bæjarfélagi. Nú hefur hraðbankinn staðið á stéttinni fyrir utan gamla bankahúsið í viku og var bilaður í mánuð þar á undan. Á meðan hafa nýjir hraðbankar komið á Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð. Við krefjumst þess að hér verði áfram hraðbanki sem hægt er að nota allan sólarhringinn,“ segir í bréfinu.


Brekkan tekur við „bankaviðskiptum“

Íbúasamtökunum barst svar tveimur dögum síðar þar sem Stöðfirðingar voru beðnir afsökunar á þeim óþægindum sem bilun á hraðbankanum hafði í för með sér, en langur tími var skýrður með hrinu bilana í nokkrum hraðbönkum Landsbankans, ítrekaðar tilraunir til þess að koma hraðbankanum í lag skiluðu ekki árangri og tækið því úrskurðað ónýtt og var fjarlægt.

Í bréfinu segir að viðskiptavinir bankans sinni nú langstærstum hluta sinna viðskipta með rafrænum hætti, í netbanka eða farsíma. Hraðbankar séu framleiddir með það að markmiði að geta annað nokkur þúsund færslum á viku, en hafi notkun hraðbankans á Stöðvarfirði hefur verið lítil, yfirleitt tveir til þrír tugir færslna á viku.

„Landsbankinn hefur undanfarnar vikur unnið að lausn til að tryggja aðgengi íbúa á Stöðvarfirði og gesta þeirra að reiðufé. Við vildum finna framtíðarlausn þar sem rekstraröryggi væri tryggt og jafnframt væri í henni fólginn stuðningur við aðra þjónustu á staðnum. Landsbankinn hóf því viðræður við verslunina- og veitingastaðinn Brekkuna um að hann annist reiðufjárafgreiðslu fyrir bankann á Stöðvarfirði. Samningur um slíka afgreiðslu liggur nú fyrir en hann felur í sér að Stöðfirðingar og gestir þeirra geti notað debetkort til að taka út reiðufé í versluninni. Bankinn greiðir Brekkunni árlega þóknun fyrir að annast þessa þjónustu og því styður þetta fyrirkomulag við verslun á staðnum,“ segir í bréfi Landsbankans.


Við sættum okkur ekki við skerta hraðbankaþjónustu

Stjórn íbúasamtakanna var ekki ánægð með þá lendingu sem Landsbankinn leggur til og segir í bréfi sem sent var á móti á dögunum að þjónustan sem Landsbankinn ætli sér að bjóða íbúum sé óviðunandi.

„Við sættum okkur ekki við skerta hraðbankaþjónustu. Brekkan er með ákveðinn opnunartíma og hraðbankaþjónustu á að vera hægt að sækja allan sólarhringinn. Setur Landsbankinn einhverjar kvaðir á lágmarksopnunartíma á Brekkunni? Það er frábært að þið viljið styðja við þjónustu í bænum en að skerða lágmarksþjónustu teljum við ekki vera stuðning, betra væri að greiða Brekkunni eða Kaffi Söxu leigu á plássi fyrir nýjan hraðbanka. Eftir að útibúinu var lokað var staðsetning hraðbanks úr leið þar sem ferðamenn labba ekki svo langt en þúsundir ferðamanna ganga hjá Brekkunni og Kaffi Söxu á hverju sumri.

Við erum fullkomnlega andsnúin þessari ákvörðun Landsbankans og lítum svo á að hann sé að bregðast hlutverki sínu sem fyrirtæki í almannaþjónustu, einkum og sér í lagi í ljósi þess að hann er ríkisfyrirtæki,“ segir í bréfi frá stjórn íbúasamtakanna.

Ljósmynd: Björgvin Valur Guðmundsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.