Mikil fækkun fíkniefnabrota á síðasta ári

Fíkniefnabrotum á Austurlandi fækkaði um 40% á síðasta ári, samkvæmt afbrotatölfræði lögreglunnar á Austurlandi fyrir síðasta ár. Kynferðisbrot hafa ekki verið færri frá árinu 2015.

Tíðni lækkaði í mörgum brotaflokkum á milli ára. Þannig voru skráð fíkniefnabrot í fyrra 20 talsins en 35 árin tvö á undan. Erfitt er að meta af hverju þessum fækkun stafar en í fyrra kom þó nýr fíkniefnahundur til lögreglunnar.

Fleiri hegningarlagabrot


Almennum hegningarlagabrotum fækkaði hins vegar um 30%, eða upp í 125 milli ára. Þau voru hins vegar óvenjufá árið 2022 en hafa að jafnaði verið um 111 talsins.

Sé kafað dýpra kemur í ljós að eignaspjöllum og ofbeldisbrotum fjölgaði töluvert á meðan auðgunarbrotum og kynferðisbrotum fór fækkandi. Hér breytist staðan enn á ný sé litið nokkur ár aftur í tímann. Skráð eignaspjöll árið 2023 voru 25 talsins en meðaltalið frá árinu 2018 eru 22 árleg slík brot.

Mestar sveiflur síðustu árin eru þó í ofbeldisbrotum. Slík brot töldust alls 31 talsins á liðnu ári en voru aðeins 18 árið á undan. Árið 2021 var þó metár í sama brotaflokki þegar 35 slík mál komu til kasta lögreglumanna. Vænlegra er að taka saman tölur allt frá árinu 2018, sem sýna að meðalfjöldi slíka mála árlega hafa verið 24.

Hér skal líka hafa hugfast að stór hluti ofbeldismála tengist heimilisófriði, af einhverju tagi, sem lögregla þarf að hafa afskipti af. Reyndar er það svo að nánast helmingur ofbeldisbrotanna tengist erjum eða átökum skyldmenna og fjölskyldna.

Þá náðist sá árangur á síðasta ári að skráð kynferðisbrot reyndust aðeins fimm talsins allt það ár og hafa ekki verið færri um langt skeið. Það er sérstaklega góður árangur sé litið til ársins 2022 þegar 14 slík mál komu upp.

Umferðarslys og brot


Umferðarslysum í umdæmi lögreglu Austurlands fjölgaði þriðja árið í röð, en 46 slík urðu á síðasta ári. Það er drjúg fjölgun slysa frá árinu 2020 þegar lögregla var kölluð að 30 slysum. Árin þar á undan voru slysin þó nokkuð fleiri og til dæmis urðu 58 slys árið 2018.

Fjölgun slysa frá 2020 á sér þó þá hugsanlegua ástæðu að aukinn fjöldi þeirra stemmir við aukna meðalumferð á austfirskum vegum yfir sama tímabil, eins og sést glögglega á meðfylgjandi töflu. Meðalumferð á Austurlandi hefur ekki verið meiri en síðasta ár í um fimm ára skeið hið minnsta.

Lögregla hyggst áfram beita sér markvisst fyrir því að ná niður ökuhraða með sýnileika í umferðinni, en einnig er áhersla lögð á að safna og deila sem víðast upplýsingum um hættulega staði og orsakir slysa þar sem það liggur fyrir.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar