Mikil úrkoma í Neskaupstað en stytt í viðvörun

Gildistími gulrar viðvörunar vegna rigningar á Austfjörðum hefur verið styttur. Mesta úrkoma á landinu síðan á miðnætti er í Neskaupstað. Áfram er varað við hættu á aurskriðum.

Gul viðvörun gekk í gildi klukkan eitt í nótt og gildir til klukkan sex síðdegis, í stað átta áður. Í gærkvöldi var dagskrá Neistaflugs breytt þannig að útitónleikar voru færðir inn í Dalahöllina og hætt var við flugeldasýningu.

Úrkoma í Neskaupstað var fyrir hádegi komin í rúma 76 mm frá miðnætti. Á Fáskrúðsfirði var hún yfir 60 mm. Þetta er mesta úrkoma á landinu á þessum tíma.

Yfir sólarhringinn er spáð meira en 95 mm yfir sólarhringinn en 60-75 mm á Eskifirði. Þessi gildi eru undir þeim sem miðað er við fyrir skriðuhættu.

Þannig er staðan líka í Seyðisfirði, þar sem gert er ráð fyrir 40 mm. uppsafnaðri úrkomu. Í yfirliti Veðurstofunnar kemur fram að grunnvatnsstaða í hlíðunum ofan fjarðarins sé lá en fylgst með breytingum á mælum.

Veðurstofan varar þó við ferðum undir bröttum hlíðum eða í lækjarfarvegum og hvetur til þess að tilkynnt sé um aurskriður sem sjást.

Mynd: Ómar Bogason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar