Mikilvægt að fækka botnlöngum í raforkukerfinu

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, segir rafmagnsleysi á Vopnafirði í síðustu viku sýna að mikilvægt sé að treysta innviði raforkukerfisins. Til stendur að setja Vopnafjarðarlínu í jörð í sumar.

Vopnafjarðarlína skemmdist í óveðri aðfaranótt sunnudagsins í síðustu viku. Vegna snjóflóðahættu og veður var ekki hægt að gera við línuna fyrr en seinni part miðvikudags. Á meðan var varaafl keyrt á Vopnafirði en það gengur fyrir olíu.

„Það er svo engin Vopnafjarðarlína tvö því það vantar alveg hringtengingu raforkukerfisins á norðausturhorninu eins og víðar. Það er raforkuskortur á þessu svæði og það hefur verulega hamlandi áhrif á atvinnulífið á svæðinu og slæm umhverfisáhrif þegar brenna þarf olíu,“ sagði Líneik Anna á Alþingi í síðustu viku.

Hún segir stöðuna óviðunandi. „Þessi staða minnir enn og aftur á að tryggja þarf öllum byggðarlögum aðgang að nægjanlegri og tryggri raforku, svo sem eins og á Tröllaskaga og á norðausturhorninu og víðar þar sem eru botnlangar eða endar í raforkukerfinu hjá okkur.

Þetta er afleit og óviðunandi staða og það á miðri loðnuvertíð. Það vill svo til að næstum öll loðna sem komin er á land fer í manneldisvinnslu sem ekki er eins orkufrek og bræðsla,“sagði hún.

Undirbúningur fyrir að leggja Vopnafjarðarlínu í jörð á tæplega 10 km löngum kafla á Hellisheiði, þar sem línan skemmdist í síðustu viku. Áformað er að því verði lokið í sumar. Líneik segir verkið ekki þola bið enda séu veðurskilyrði oft vond á svæðinu auk þess sem það sé torfarið og því hættulegt. „Staðan núna sýnir einmitt mikilvægi þess að þeirri áætlun seinki ekki, við hana verði staðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.