Mikilvægt að ferðamenn fari í sóttkví

Aðgerðastjórn almannvarnanefndar á Austurlandi varar við því að óheftur fjöldi ferðamanna á Austurlandi gæti aukið mjög á smithættu. Þess vegna sé mikilvægt að ferðamenn fari í sóttkví líkt og þeir sem búsettir eru hérlendis gera eftir að þeir koma erlendis frá.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar en þar segir að aðgerðastjórnin hafi áhyggjur af því að með hækkandi sól auki óheftur ferðamannafjöldi erlendis frá smithættu á svæði sem sé viðkvæmt fyrir.

„Þetta hefur verið tekið fyrir og rætt innan almannavarnanefndar Austurlands og aðgerðastjórnar. Áhyggjurnar hafa lotið að því að fá ferðamenn frá sýktum svæðum, sem eru svo sem öll lönd veraldar að því er best er vitað. Koma ferðamanna eins og staðan er núna í þeim faraldri er geysar hlýtur því að auka smithættu,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

„Það þarf ekki mikið til að verulega reyni á innviði svæðisins, sem þegar eru að hluta í höftum til að tryggja órofinn rekstur. Því hefðum við, aðgerðastjórn á svæðinu, talið eðlilegt að koma ferðamanna erlendis frá héldist í hendur við breytt ástand innanlands, sem ekki er að breytast mikið fyrr en 4. maí í fyrsta lagi.

Flugsamgöngur, inn og út af svæðinu, hafa minnkað sem þýðir auk þess að bjargir gætu orðið erfiðra en ella. Í okkar litlu sveitarfélögum er nálægð líka mikil. Þess vegna þarf að okkar mati lítið að gerast til að hér geti orðið ástand sem erfitt verði að ráða við, eins og dæmin sanna. Til þessa vísum við þegar við segjum að svæðið sé viðkvæmt,“ segir Kristján.

Búið er að koma áhyggjum almannavarnanefndar Austurlands og aðgerðastjórnar á framfæri við Almannavarnir á landsvísu. Í tilkynningunni í dag er tekið undir tilmæli sóttvarnalæknis frá í gær um sú þeirri reglu verði komið á, fram til 15. maí hið minnsta, að allir þeir sem komi til landsins fari í tveggja vikna sóttkví. Þau tilmæli hafa þó ekki verið staðfest af ráðherra og hafa þar af leiðandi ekki tekið gildi. 

Ferðir Norrænu breyta stöðunni

Þannig voru þau ekki í gildi þegar Norræna kom til Seyðisfjarðar í morgun með rúmlega 20 farþega. Þeir voru hins vegar allir annað hvort búsettir hérlendis eða að koma til vinnu og fara því í sóttkví.

„Það gekk prýðilega að afgreiða ferjuna. Farþegum var leiðbeint með það hvernig þeir ættu að haga sér í sóttkví. Einhverjir þegar fengið slíkar leiðbeiningar frá smitrakningateymi áður en ferjan kom að landi.“

Rúmur mánuður var í morgun liðinn síðan ferjan kom síðast til Seyðisfjarðar. Siglingar hennar ýttu undir viðbrögð almannavarnanefndar Austurlands. „Áhyggjur okkar af ferðamönnunum eru nýtilkomnar, þær voru ekki fyrir hendi meðan ferjan sigldi ekki. Um leið og það breytist þarf að taka afstöðu til þess hvort um leið aukist smithætta eða ekki.“

Síðast greindist smit á Austurlandi miðvikudaginn 9. apríl. Tveir Austfirðingar eru í einangrun með virkt smit. Fjórtán eru í sóttkví, einum færri en í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.