Minna á að áfram þurfi að fara varlega

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands minnir íbúa á að áfram þurfi að sýna aðgæslu og huga að sóttvörnum þótt íbúar finni fyrir létti þar sem byrjað er að slaka á samkomubanni vegna Covid-19 faraldursins.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar í dag segir að hún finni fyrir létti meðal íbúa vegna jákvæðrar þróunar og haftalosunar. Sú þróun haldi vonandi áfram.

Hins vegar er minnt á að hún komi ekki af sjálfu sér. Því eru Austfirðingar hvattir til að hafa varann á og fylgja þeim leiðbeiningum sem enn eru til staðar. Bent er á að hjarðónæmi sé enn ekki til staðar og íbúar því jafn útsettir fyrir smiti og í upphafi faraldurs.

Aukin ferðalög fólk milli landshluta auki einnig hættu á smiti. Þess vegna minnir aðgerðastjórn á tveggja metra regluna, handþvott og sprittnotkun. „Þannig tryggjum við okkur sjálf og þá sem í kringum okkur eru og stuðlum jafnframt að áframhaldandi auknu frjálsræði í leik og starfi.“

Þrír eru í sóttkví, jafnmargir og í gær. Ekkert virkt smit er til staðar í fjórðungnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar