Gistinóttum í júní fækkaði um meira en helming

Heildarfjöldi greiddra gistinátta í júní síðastliðnum dróst saman um 72% samanborið við júní 2019. Samdrátturinn á Austurlandi er 54% samanborið við yfir 90% á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir einnig að enn voru 32 hótel lokuð vegna samdráttarins í júní en mörg hótel lokuðu í mars vegna Covid-veirunnar og hrunsins í ferðamennsku sem fylgdi í kjölfarið.

Samdrátturinn er mestur á höfuðborgarsvæðinu en Suðurnes fylgja fast á eftir með 88% samdrátt og Suðurland með 71%. Samdrátturinn á Austurlandi er 54% sem fyrr segir. Sama hlutfall er á Norðurlandi en minnstur er samdrátturinn á Vesturlandi og Vestfjörðum eða 43%

Herbergjafjöldi á hótelum á Austurlandi minnkaði um 5,4% en um 24% á landsvísu og 40% á höfuðborgarsvæðinu. Nýting þeirra eystra minnkaði um 34,4%, álíka mikið í dreifbýlli landshlutum. Að meðaltali minnkaði hún um 51,4%, mest á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum um 66%.

Gögn Hagstofunnar sýna að gistinætur á hótelum í júní voru 89.900, sem er fækkun um 79% frá sama mánuði árið áður. Á gistiheimilum var fækkunin 75%. Um 16,8% gistinátta á hótelum voru skráð á erlenda ferðamenn, eða 15.100, en gistinætur Íslendinga voru 74.800 eða 83,2%. Athygli vekur að gistinóttum Íslendinga fjölgar um 96% í júlí en fækkunum meðal erlendra gesta er sama tala.

Yfir 12 mánaða tímabil frá júlí til júní er fækkunin á Austurlandi 15%, samanborið við 22% á landsvísu. Fækkunin er yfir 20% á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi og Suðurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.