Minnkandi bleikjuveiði í Norðfjarðará

Veiði bendir til þess að bleikjum hafi fækkað töluvert í Norðfjarðará síðustu tvö ár. Orsakir þess eru óþekktar en áin hefur verið ein helsta bleikjuveiðiá Austurlands.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar unnu fyrir Vegagerðina á Reyðarfirði. Um er að ræða áfangaskýrslu í fimm ára vöktunarverkefni í kjölfar þess að efnistöku var hætt í ánni 2017.

Talsvert efni hefur verið unnið í ánni undanfarin ár, leyfi var veitt fyrir 39 þúsund rúmmetrum af efni frá árinu 2010. Á sama tíma er Norðfjarðará ein aðalbleikjuveiði á Austurlands.

Þar veiddust að meðaltali 829 bleikjur á hverju sumri frá 2013 til 2018, álíka margar og samanlagt í sex öðrum ám á Austurlandi. Veiði í ánni var nokkuð stöðug árin 2004-2016, mest var árin 2012 og 2013, tæplega 1300 fiskar. Síðustu tvö ár hefur hallað undan fæti og veiddust aðeins rúmlega 500 bleikjur þar síðasta sumar.

Ekki er ljóst hvað veldur. Bleikjuveiði hérlendis hefur almennt minnkað, en Norðfjarðará virtist skera sig frá þeirri þróun til 2016. Skýrsluhöfundar benda á að efnistakan getur hafa haft áhrif, en eins geti margir samverkandi þættir verið að baki. Breytingar á hitastigi hafa verið nefndar sem skýring og bent er á að hægt væri að safna frekari gögnum með að koma fyrir síritahitamæli í ánni.

Í seiðamælingum fundust þrír árgangar bleikju, frá vorgömlum upp í tveggja ára. Ekki var marktækur munur á holdastuðli, meðallengd eða meðalþyngd seiðanna milli ára.

Seiði fundust á öllum sjö stöðunum sem kannaðir voru í ánni, einnig á fyrrverandi efnistökusvæðum sem sýnir að þau séu þegar farin að nýtast sem búsetusvæði.

Norðfjarðará fellur um 19 km lengd úr Fannardal til sjávar í Norðfirði. Efsta svæði árinnar hefur verið friðað þannig að bleikjan geti leitað þar skjóls til hrygningar. Athygli vekur að þéttleiki seiða á því svæði er undir meðaltali árinnar. Það þýði ekki að svæðið skipti ekki máli fyrir hrygningu en æskilegt sé að kanna nánar hvar helstu hrygningarsvæðin séu í ánni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar